- Advertisement -

Verðum að berjast sameinuð fyrir efnahagslegu lýðræði og réttlæti

Aðeins með því munum við geta tryggt að hagsmunir almennings verði ekki undirseldir órum, frekju og fautaskap auðstéttanna.

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Nokkur orð vegna atburða síðustu daga og vikna.

Vinnandi fólk á Íslandi hefur undanfarna daga og vikur enn á ný fengið innsýn í hugarheim meðlima auð og valdastéttarinnar, sem telja sig eigendur íslensks samfélags. Við hljótum öll að vera þungt hugsi eftir þá samstilltu árás á flugfreyjur sem við höfum orðið vitni að. Ljóst er að stéttaátökin fara harðnandi. Við verðum bæði að berjast af fullum krafti fyrir því að auðvaldið fari hér ekki sínu fram eins og því sýnist, og einnig verja með kjafti og klóm okkar áunnu réttindi. Við verðum að berjast sameinuð fyrir efnahagslegu lýðræði og réttlæti á Íslandi.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Meðlimir í FFÍ hafa þurft að þola kúgun og ógnarstjórnun milljón krónu-mannanna.

IcelandAir og Samtök atvinnulífsins hafa gengið fram af ótrúlegri hörku gagnvart FFÍ. Meðlimir í FFÍ hafa þurft að þola kúgun og ógnarstjórnun milljón krónu-mannanna. Kvennastétt sem notar hjarta, hendur og heila við sína vinnu hefur þurft að þola það að vera sagt upp stöfum, kastað í ruslið, vegna þess að meðlimir hennar vildu ekki hlýða skipunum frá þeim sem telja sig eigendur alls á þessari eyju. Svona er ástandið í kvennaparadísinni; vinnandi konur eiga von á því að vera útmálaðar sem galnar og haldnar skemmdarfýsn, eiga von á því að vera hæddar og smánaðar fyrir það eitt að reyna að standa vörð um réttindi sín og berjast fyrir eðlilegum launum fyrir sína unnu vinnu. Í þeirri atlögu taka þátt ríkir og valdamiklir karlar, sem svífast nákvæmlega einskis. Ljóst er að kven-vinnuaflið verður að standa saman nú sem aldrei fyrr.

Í aðförinni að FFÍ réðust IcelandAir og SA gegn rétti vinnandi fólks á Íslandi til að bindast samtökum í stéttarfélagi og semja sameiginlega um kjör sín. Harkan sem sýnd var af þessum aðilum er til háborinnar skammar og verður lengi í minnum höfð. Fulltrúar fyrirtækisins og talsmenn SA skulda flugfreyjum afsökunarbeiðni vegna framkomu sinnar. Samningsréttur vinnandi fólks á Íslandi er hornsteinn vinnumarkaðarins. Við sem seljum aðgang að vinnuaflinu okkar treystum fyrst og fremst á samtakamátt okkar. Aðeins með því að bindast samtökum eigum við möguleika á því að standa gegn því æðisgengna valdi sem auðurinn færir eigendum atvinnutækjanna og fjármagnsins. Það er staðreynd sem við hljótum öll að skilja og viðurkenna. Að vinna þann rétt kostaði stórkostlegar fórnir fyrir íslenskt verkafólk, meðal annars verkfallsaðgerðir og hörð átök við atvinnurekendur yfir margra áratuga tímabil. Þessi réttur er forsenda þeirra kjara og lífsskilyrða sem náðst hafa fyrir almenning á Íslandi. Samtök atvinnulífsins hafa nú lýst yfir stríði við þennan grunnrétt. Fram hjá því er ekki hægt að líta.

Það er einhverskonar úrkynjun að skilja það ekki.

Vegna þeirra orða er fallið hafið um hugsanlega þátttöku lífeyrissjóðanna í áformuðu hlutafjárútboði IcelandAir vil ég segja þetta:

Þrátt fyrir að talsmenn stór-kapítalsins vilji láta sem svo að lögmál auðsöfnunar og arðráns séu náttúrulögmál er það auðvitað ekki rétt. Auðvaldið á ekki vinnandi fólk og auðvaldið á ekki eftirlaunasjóði okkar. Það er afskaplega óheppilegur misskilningur, svo vægt sé tekið til orða, að einhver skuli láta sér detta það til hugar. Staðreyndin er sú að vinnandi fólk á Íslandi getur ekki og mun ekki samþykkja að eftirlaunasjóðir þess verði nýttir til að fjármagna árásir á grunnréttindi vinnuaflsins eða til fjármögnunar á fyrirtækjum sem standa í fararbroddi slíkra árása. Að forystufólk í verkalýðsfélögum bendi á þessa augljósu staðreynd er fullkomlega sjálfsagt og eðlilegt. Það er einhverskonar úrkynjun að skilja það ekki. Að sjálfsögðu á formaður í verkalýðsfélagi að lýsa yfir algjörri andstöðu við að sjóðir launafólks séu notaðir til að gefa auðvaldinu frítt spil til að innleiða nýja og ógnvænlega tíma á Íslandi. Það er ekkert annað en hans eða hennar siðferðilega og pólitíska ábyrgð. Við sem erum í forsvari fyrir samtök vinnandi fólks munum ekki sætta okkur við að framferði sem stríðir gegn okkar grundvallarsjónarmiðum nái fram að ganga. Þeir þöggunartilburðir sem birst hafa okkur undanfarið og beinst hafa sérstaklega að formanni VR eru ekkert annað en árás á tjáningarfrelsi og heilbrigða samfélagsumræðu í lýðræðissamfélagi. Embættismenn hins opinbera og aðrir meðlimir borgarastéttarinnar ættu að hugsa sinn gang og velta því fyrir sér hvort ekki sé kominn tími til að endurskoða hugmyndir þær er náð hafa að festa svo rækilega rætur, um að hagsmunir og vilji auðstéttanna séu það sem öll skuli viðurkenna og tilbiðja, sama hvaða afleiðingar það hafi. Það er móðgun við mig og aðra meðlimi stéttar verka og láglaunafólks að þurfa að hlusta á það úr fílabeinsturnum hinn hátt settu að ekki megi berjast gegn því að lífeyrissjóðir okkar séu nýttir í að láta óra auðvaldsins rætast. Hvað heldur fólk eiginlega að það sé?

Að lokum:

Ég vona innilega að flugfreyjur séu sáttar við þann samning sem skrifað var undir. Þær hafa þurft að ganga í gegnum ömurlega atburðarás. En þær hafa sýnt fádæma hugrekki, þor og þol. Ég þekki hvernig það er að lifa við árásir og skítkast fyrir það að vilja berjast fyrir hagsmunum vinnuaflsins. Það getur tekið á, enda ekkert annað en andlegt ofbeldi. Það virðist því miður vera þannig á Íslandi í kreðsum þeirra sem ráða í krafti fjármagns að enginn glæpur er stærri en sá er kona í verkalýðsbaráttu fremur. Það er ógeðslegt að verða vitni að því. Ég vona af öllu hjarta að við getum staðið saman í því sem koma skal. Aðeins með því munum við geta tryggt að hagsmunir almennings verði ekki undirseldir órum, frekju og fautaskap auðstéttanna.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: