- Advertisement -

Verðtryggingin átti að vera til bráðabirgða

Greinilegt er að þingmenn skildu ekki þá meinsemd sem verðtryggingin er, því annars hefðu þeir aldrei samþykkt hana.

Marinó G. Njálsson

Marinó G. Njálsson skrifar:

Nú er talsvert rætt um verðtrygginguna og hvernig hún er einn ganginn enn að færa verðmæti frá heimilunum til bankanna (og lífeyrissjóðanna). Af þessu tilefni er kannski rétt að rifja upp hvers vegna almenn verðtrygging var tekin upp árið 1979 og skoða síðan hvers vegna verðbólguskot fara svona illa með Íslendinga, vaxtastefnu bankanna og hvernig peningar verða til.

Fyrst er rétt að nefna, að upptaka almennrar verðtryggingar átti að vera bráðabirgðaráðstöfun, en eins og með bráðabirgðastjórnarskrána frá 1944, þá er ekki hægt að fá hlutunum breytt. Líka er rétt að nefna, að verðtrygging var búin að vera mun lengur til staðar í íslensku samfélagi, en ekki á lánveitingum til almennings, hvað þá á launum.

Skaðvaldurinn var viðskiptajöfnuðurinn eða eigum við að segja ójöfnuðurinn og gengið.

Árið 1972, þegar olíukreppan skall á, fór verðlag úr böndunum út um allan heim. Verðhækkanir á innfluttum vörum voru miklar og skilaði sér þá og á næstu árum í allt að 55% verðbólgu. Á þeim tíma voru vextir ákveðnir af Alþingi (þ.e. Alþingi varð að samþykkja tillögu Seðlabankans). Þingmenn vissu og sögðu meira að segja í þingræðum, að ekki væri hægt að láta vexti fylgja verðbólgunni, því atvinnulífið myndi ekki ráða við að greiða 30, 40 eða 50% vexti. Þess vegna, og aðeins þess vegna, voru vextirnir ekki hækkaðir og sparifé brann upp í verðbólgunni. Mörg fermingabörnin sáu á eftir fermingapeningunum sínum nema þau væru nógu fljót að eyða þeim og sama átti við um sumarhýru ungsfólks.

Greinilegt er að þingmenn skildu ekki þá meinsemd sem verðtryggingin er, því annars hefðu þeir aldrei samþykkt hana. Sá hagfræðiskilningur hefði líka leitt mönnum í ljós, ekki þýðir að slá á óðaverðbólgu með vaxtabreytingum. Skaðvaldurinn var viðskiptajöfnuðurinn eða eigum við að segja ójöfnuðurinn og gengið. Á þeim tímum, sem oft áður og síðar, þá eyddi þjóðin um efni fram.

En verðtrygging var gerð almenn, vegna þess að þingmenn vildu ekki hækka vexti á atvinnulífið! Þetta var í apríl 1979, þegar verðbólgan mældist rétt rúm 36%. Og hvernig heldur þú, lesandi góður, að hafi tekist til? Jú, verðbólgan jókst gríðarlega við upptöku verðtryggingarinnar. „Bjargvætturinn“ var því olía á verðbólgubálið! Innan árs var verðbólgan komin yfir 63% og hún toppaði í yfir 100% árið 1983.

Samfellt frá maí 1972 og til verðbólgumælinga í nóvember 1990, hélst verðbólgan yfir 10%. Ísland var svo sem ekki eina land Evrópu sem var að kljást við svona mikla verðbólgu. Mörg lönd leituðu í Evrópusambandið í von um efnahagslegan stöðugleika, en það varð ekki fyrir en þau gáfu upp myntina sína og tóku upp evru að stöðugleiki náðist. Líklegast er helsta ástæðan, að ekki var lengur hægt að fella gengið til að auka verðmæti útflutnings, varð verðmætasköpun innan hvers ríkis að standa undir innanlandsneyslunni. Vissulega kostaði stöðugleiki verðlags að atvinnuleysi jókst og er það enn víða óásættanlegt.

Verðbólga er almennt leiðrétt með hækkun launa og því verði skuldir lægra hlutfall launanna eftir hvert verðbólguskot. Nema á Íslandi.

Í nánast öllum löndum heims, er kreppa og verðbólga látin éta upp og „leiðrétta“ skuldir almennings og heimilanna. Vissulega hækka vextir tímabundið hjá þeim sem eru með breytilega vexti eða þurfa að taka ný lán, en raunvirði skuldanna lækkar. Verðbólga er almennt leiðrétt með hækkun launa og því verði skuldir lægra hlutfall launanna eftir hvert verðbólguskot. Nema á Íslandi. Þar hefur hvert verðbólguskot (að ég tali nú ekki um langvarandi verðbólga) hækkað skuldir langt umfram hækkun launanna.

Frá því um miðjan 9. áratuginn hefur verið vaxtafrelsi, sem er samt ekki meira en svo, að allar fjármálastofnanir verða að fylgja Seðlabankanum eftir. Innan þessa „frelsis“ hafa bankar og sparisjóðir boðið mjög einsleitt úrval lána til einstaklinga og heimila og þrátt fyrir að reynt hafi verið að takmarka framboð verðtryggðra lána, þá hefur vantað þá lánategund sem leyfir skuldum að lækka að raunvirði í verðbólgu, þ.e. langtímalán sem hagstæðum, föstum vöxtum.

Eins og þetta blasir við mér, þá eru bankarnir enn þá fastir í fortíðinni (að allt geti farið í bál og brand) og þeir hafa ekki enn lært, að þeir bera yfirleitt mesta ábyrgð á verðbólgu með óhóflegum útlánum. Þeir fylgja síðan þeirri vaxtastefnu, að lán skal á hverju ári bera hærri vexti en nemur verðbólgu, í staðinn fyrir að lán skal yfir lánstímann gefa viðunandi ávöxtun. Breytingar á vísitölu neysluvöru eru EKKI mælikvarði á hvað telst viðunandi ávöxtun. Réttur mælikvarði er hvaða aðra ávöxtun gæti bankinn að jafnaði fengið miðað við kostnað sinn af útláninu. Sá kostnaður er EKKI vegna vaxta sem bankar greiða af skuldabréfum sínum, heldur eru það þeir vextir sem þeir greiða sparifjáreigendum. Þeir virðast ekki enn viðurkenna, að þeir fjármagna ekki lán til einstaklinga með ytri lántöku, heldur búa þeir til peninga um leið og lánið er lagt inn á reikning lántakans. Þ.e. þegar verið er að lána í krónum.

Ef þið trúið mér ekki, þá er hér tilvísun í greinina „Money creation in the modern economy“ sem birt var í ársfjórðungsriti Bank of England (seðlabanka Englands) í mars 2014 (Quarterly Bulletin 2014 Q1):

„Money creation in practice differs from some popular misconceptions — banks do not act simply as intermediaries, lending out deposits that savers place with them, and nor do they ‘multiply up’ central bank money to create new loans and deposits.“

og

„Whenever a bank makes a loan, it simultaneously creates a matching deposit in the borrower’s bank account, thereby creating new money.“

Greinina birti Marinó fyrst á Facebooksíðu sinni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: