- Advertisement -

Verðmætasköpun dregst saman um 400 milljarða

Ég óttast að áhrifin muni skella á af fullum þunga í haust.

Vilhjálmur Birgisson:

Nú liggur fyrir að greiningaaðilar gera ráð fyrir að verðmætasköpun dragist saman um 400 milljarða og halli ríkissjóðs verði 300 milljarðar á þessu ári.

Það er morgunljóst að við siglum inn í eina mestu efnahagskreppu sem okkar kynslóð hefur upplifað, en rétt að vekja athygli á að áhrif hennar eru ekki farin að koma fram að mínu mati, nema að litlu leiti til þessa. Ég óttast að áhrifin muni skella á af fullum þunga í haust þegar þeir tugþúsundir sem hafa orðið fyrir atvinnumissi detta niður á lágmarks atvinnuleysisbætur, sem eru einungis 230.000 útborgað.

Það er ljóst að fram undan eru krefjandi tímar.

Staðan er alvarleg svo ekki sé fastara að orði kveðið, enda verðmætasköpun að dragast saman um 400 milljarða og halli ríkissjóðs 300 milljarðar eins og áður sagði. Eins og flestir vita þá reka allar þjóðir sín samfélög á gjaldeyrisskapandi atvinnugreinum, en okkar helstu gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar eru eins og flestir vita ferðaþjónustan, orkusækin iðnaður og sjávarútvegurinn.

Þessar gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar gera það að verkum að við náum að reka hér t.d. heilbrigðiskerfið, menntakerfið, löggæslu að ógleymdu almannatryggingakerfinu.

Núna er staðan þannig að á hinum almenna vinnumarkaði voru 140 þúsund manns starfandi fyrir Kórónufaraldurinn, en núna eru 56 þúsund komin á atvinnuleysisbætur að fullu eða að hluta og koma þeir nánast allir af almenna vinnumarkaðnum, sem þýðir að einungis 84 þúsund manns eru eftir á hinum almenna vinnumarkaði.

Ég skal fúslega viðurkenna að ég veit ekki hvernig hið opinbera á að standa undir sér þegar upp undir 136 þúsund manns eru komnir á launaskrá hjá hinu opinbera með einum eða öðrum hætti, en þessir 136 þúsund manns skiptast með eftirfarandi hætti, 60 þúsund manns starfa hjá hinu opinbera, 56 þúsund manns eru komir að hluta að fullu á atvinnuleysisbætur og upp undir 20 þúsund einstaklingar fá greiðslur frá Tryggingarstofnun.

Það er ljóst að fram undan eru krefjandi tímar, tímar sem kalla á að efla og auka þarf gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar, þannig að við náum að sigla út úr þessu ölduróti sem við erum nú stödd í.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: