- Advertisement -

Verði þeim að góðu ef þau efna til ófriðar við okkur

…láglaunafólkið ætti að sökkva enn dýpra í fen fátæktarinnar.

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Nokkur orð um stöðuna

Eins og flest sennilega vita stendur nú yfir atkvæðagreiðsla hjá Samtökum atvinnulífsins um hvort segja eigi upp Lífskjarasamningnum svokallaða. Niðurstöður eiga að liggja fyrir á þriðjudag eða miðvikudag. Í aðdraganda þess að Halldór Benjamín fyrir hönd fulltrúa SA í margumræddri forsendunefnd steig fram og lýsti því yfir að samtökin teldu forsendur brostnar birti Þorsteinn Víglundsson, fyrrum framkvæmdarstjóri SA, fyrrverandi þingmaður Viðreisnar og núverandi forstjóri eignarhaldsfélagsins Hornsteins ehf, grein þar sem hann sagði að forsendur kjarasamninganna sem undirritaðir voru í apríl 2019 hefðu staðist í öllum megindráttum en væru þó engu að síður brostnar. Þarna fetaði hann í fótspor annara hátt settra manna í íslensku samfélagi sem hafa undanfarið notað öll sín platform til að básúna þessa sömu skoðun byggða á einstaklega óheiðarlegri afstöðu. Heilan dag heyrðist svo í öllum fjölmiðlum sagt frá Þorsteini og skoðun hans. Með þessu var jarðvegurinn undirbúinn fyrir það sem koma skyldi; Halldór Benjamín birtist daginn eftir til að segja alþjóð að forsendur kjarasamninga væri brostnar og að illgirni hreyfingar vinnandi fólks hefði náð nýjum hæðum af því að ekki fengist samþykkt að láglaunafólkið ætti að sökkva enn dýpra í fen fátæktarinnar. Á föstudaginn birti ég grein þar sem ég útskýrði í löngu og vel rökstuddu máli hversu ótrúlega óheiðarlegur málflutningur framkvæmdarstjóra SA er: forsendur Lífskjarasamningsins hafa staðist; í Lífskjarasamningnum er að finna tæmandi lista yfir þau atriði sem teljast til forsendna samningsins og þau eru kaupmáttaraukning, vaxtalækkun og efndir á loforðum stjórnvalda. Það tímasetta loforð sem hefði átt að vera búið að uppfylla fjallar um takmörkun á 40 ára verðtryggðum húsnæðislánum. Eins og ég segi í greininni: „Um er að ræða atriði sem stjórnvöld lofuðu að beiðni verkalýðshreyfingarinnar, ekki atvinnurekenda, og þar af leiðir að meintur forsendubrestur varðandi það er verkalýðshreyfingarinnar að skera úr um, ekki atvinnurekenda. Enn fremur liggur fyrir að frumvarp er í smíðum sem fullnægja mun umræddu loforði líkt og forseti ASÍ lýsti í fréttum í gærkvöldi.“ Ég hvet ykkur til að lesa greinina í heild sinni til að fá yfirsýn um málið og hvað um ræðir: https://www.frettabladid.is/skodun/forsendur-vindhanans/….

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það er ekkert annað en stórkostlega merkilegt að verða vitni að þeirri samstilltu og einbeittu aðför að kjörum þeirra lægst launuðu í samfélaginu sem SA standa nú fyrir, með hótunum sem byggja á óheilindum, klækjum og villandi málflutningi.

ina vopnið sem hún er fær um að beita er móðgunargirnin.

Í morgun var mér bent á að Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, hefði brugðist við grein minni. Hún segir að ég hafi ráðist með heift að SA, ferðaþjónustunni og einstökum persónum, „sem hún rakkar niður eins og henni einni er lagið“ eins og Bjarnheiður orðar það. Bjarnheiður fer í gegnum það sem ég segi í greininni, móðguð og sár, segir að ég kalli framkvæmdarstjóra vindhana, saki hann um að ganga á bak orða sinna, segi að SA séu lömuð eftir yfirtöku stórfyrirtækja úr ferðaþjónustunni og stundi “klækjabrögð, óheilindi og tækifærismennsku”. Allt er sem sagði ég vissulega og allt þetta er rétt. Enda reynir Bjarnheiður ekki að svara mér málefnalega og reka þær staðreyndir sem ég tel up í greininni. Það getur hún nefnilega ekki. Eina vopnið sem hún er fær um að beita er móðgunargirnin. En eins og við flest vitum skilar móðgunargirni okkur litlu, sérstaklega þegar við ákveðum að móðgast yfir sannleikanum. Gagnvart honum er yfirleitt vænlegra til árangurs að sýna í það minnsta vott af auðmýkt. Ekkert af mínum málflutningi er „algjörlega úr lausu lofti gripinn” eins og Bjarnheiður heldur fram, þvert á móti er allt sem ég skrifa byggt á staðreyndum úr íslenskum samtíma.

Það sem Bjarnheiði sárnar sennilega mest er staðreyndin um að SA séu í raun vanhæf til að koma fram fyrir hönd atvinnurekenda á Íslandi vegna yfirtöku stórfyrirtækja í ferðabransanum og hömlulausrar hagsmunagæslu í þeirra þágu. Bjarnheiður reynir ekki að hrekja þessi orð. Enda veit hún veit eflaust jafnvel og ég að fulltrúar annara greina en ferðamannaiðnaðarins eru farnir að tjá það sem öllum er auðvitað ljóst, að hér þurfi að móta svokallaða atvinnustefnu sem ekki byggi á því að velja „sigurvegara“ sem fá svo að fara sínu fram af innblásnu hömluleysi og græðgi. Hér vísa ég t.d. til orða Sigurðar Hannessonar, formanns Samtaka iðnaðarins, en í viðtali sem Kjarninn birti við hann fyrir skemmstu koma m.a. þetta fram:

Sannleikanum verður hver sárreiðastur.

„Raunar segir Sigurður að aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum vegna kórónuveirufaraldursins sýni „svart á hvítu“ að stjórnvöld séu með atvinnustefnu af öðrum toga en þá sem hann teldi æskilega. „Sú atvinnustefna gengur út á það að velja sigurvegara og þar er raunar einn sigurvegari sem er á blaði og það er ferðaþjónustan. Aðgerðir stjórnvalda miða fyrst og fremst við að bjarga ferðaþjónustunni. Það er skiljanlegt, með hliðsjón af því hvaða vægi hún hefur haft, þar eru fjölmörg störf undir og greinin mun sannarlega ná fyrri styrk, það er bara spurning um tíma, en á sama tíma eru tækifæri sem fara forgörðum vegna þess að athygli stjórnvalda beinist ekki að þeim,“ segir Sigurður.”

Sigurður og aðrir talsmenn eigenda atvinnutækjanna og fjármagnsins sem ekki fylgja níhílískri harðlínu-stefnu SA og Bjarnheiðar Hallsdóttur geta varla verið svo skyni skroppnir að vilja segja upp samningum til að komast hjá því að greiða umsamdar (hófstilltar) hækkanir, krónur sem skila sér beint út í hagkerfið og verða þess valdandi að innlent atvinnulíf sem ekki á allt sitt undir ferðamönnum getur haldið áfram að vaxa; fiskvinnsla, iðnaður, ræstingar, byggingariðnaður, vöruflutningar, smásala og svo framvegis.

Bjarnheiður hlýtur að átta sig á þessu og verður sennilega þess vegna eins og lítill leikþáttur um málsháttinn snjalla: Sannleikanum verður hver sárreiðastur.

Ég vil nota tækifærið, fyrst ég er byrjuð að tjá mig um staðreyndir mála og í ljósi þess að yfir þetta hefur ekki verið rætt opinberlega, fara yfir þá atburðarás sem hefst ef að SA segja upp samningum:

Ef að samningar verða lausir þá er vinnandi fólk á almennum markaði ekki lengur undir friðarskyldu. Þá hefst vinna við að skipa samninganefndir, útbúa kröfugerð og viðræðuáætlun. Stjórn Eflingar hittist síðasta föstudag og fór yfir þessa stöðu. Ljóst er að við í Eflingu erum tilbúin í það sem koma skal, ef samningum verður sagt upp af SA. Við höfum jú verið í stanslausri baráttu síðustu ár og erum orðin einstaklega vel þjálfuð í þeirri vinnu sem fylgir samningaviðræðum og undirbúningi verkfalla, ef til þess kemur.

Við erum miklu meira en tilbúin í slíkar viðræður.

Við munum ekki koma óundirbúin að samningaborðinu, þvert á móti. Það er fjöldi atriða og mála sem að við höfum mikinn áhuga á að ræða og takast á um, bæði við samningaborðið og svo auðvitað í hinni almennu pólitísku umræðu í samfélaginu, á komandi kosningavetri. Við undirritum Lífskjarasamningsins var fjölmargt sem við höfðum ekki náð að koma í gegn er varðar trúnaðarmannakerfið og aukið lýðræði á vinnustöðum. Við erum miklu meira en tilbúin í slíkar viðræður. Við erum jafnframt meira en tilbúin í að ræða opinskátt svo að öll heyri þær aðstæður sem ríkja víða á íslenskum vinnumarkaði (Hér verð ég að nefna að SA hafa staðið algjörlega forhert gegn því að launaþjófnaður verði raunverulega gerður refsiverður. Allt fólk með sæmilega stilltan siðferðisáttavita hlýtur að undrast þá staðreynd), sérstaklega þegar kemur að okkar aðfluttu félögum. Það er margt undir þar, t.d. það húsnæði sem fólki er boðið uppá og er samtvinnað ráðningarsamningi. Við erum tilbúin í viðræður sem snúast um vinnustaðaeftirlit og það sem við finnum þegar við heimsækjum vinnustaði. Við erum tilbúin í viðræður um styttingu vinnuvikunnar. Við erum tilbúin í viðræður um launamun á vinnustöðum og hvað við teljum eðlilegt og ásættanlegt í þeim efnum.

Við erum jafnframt meira en tilbúin í viðræður um eðli lífeyrissjóðakerfisins og aðkomu atvinnurekanda að því, viðræður um það sem sennilega væri réttast að kalla „lýðræðisvæðingu lífeyrissjóðakerfisins“. Þar munum við setja allan fókusinn á hagsmuni láglaunafólksins sem sannarlega eru taparar þessa kerfis. Við erum líka tilbúin og vel undirbúin í intensívar umræður um skattkerfið og hvernig við viljum að það sé notað markvisst til að endurúthluta þeim gæðum sem hér verða til með vinnu okkar. Við munum einnig vilja setja mikinn fókus á skattaskjól og þann þjófnað sem fjármagnseigendur komast upp með, þegar þeir senda milljarða á milljarða ofan í felur til að komast hjá því að taka eðlilegan þátt í rekstri þjóðfélagsins. Við erum líka tilbúin til að ræða eignastöðu hinna auðugu og eignaleysi láglaunafólksins sem hefur verið gert ómögulegt að eignast eigið húsnæði svo það geti orðið fórnarlömb arðránsins hins seinna; eftir að þau hafa fengið sín litlu laun útborguð þurfa þau að greiða því sem næst allar sínar ráðstöfunartekjur á gróðavæddum húsnæðismarkaði.

Við vitum að við þurfum að berjast fyrir öllu sem við fáum með kjafti og klóm, hverri einustu krónu.

Allt þetta og margt fleira verður inntak þeirra samningaviðræðna sem hefjast ef að SA bindur enda á friðarskylduna og segir upp samningum.

Lífskjarasamningurinn snerist um að bæta kjör hinna lægst launuðu. Hann hefur skilað árangri í því. Samtök atvinnulífsins vilja nú fara í stríð við láglaunafólk, það fólk sem starfar eftir þeim töxtum sem samið er um, fólkið sem hefur svo lítið á milli handanna að það er langt undir opinberum framfærsluviðmiðum. Milljón-króna mennirnir sem eiga svo mikið að þeir vita ekki aura sinna tal ætla sér að gera líf þeirra sem ekkert eiga enn verra. Og eru tilbúnir að lengja kreppuna með því að fara í kjaraskerðingu sem mun ekkert gera nema að draga markvisst úr innlendri eftirspurn til að ná árangri í því sem þeir upplifa greinilega sem eitt brýnasta hagsmunamál sitt.

Að lokum: Við sem tilheyrum stétt verka og láglaunafólks vitum vel að kerfið, kapítalisminn, er í eðli sýnu eins ólýðræðislegt og hægt er að hugsa sér. Við vitum að við þurfum að berjast fyrir öllu sem við fáum með kjafti og klóm, hverri einustu krónu. Og loksins höfum við fengið tækifæri til að berjast fyrir okkar hagsmunamálum, nú þegar við förum með völd í öðru stærsta verkalýðsfélagi landsins. Við vitum að það sem við erum að fást við og berjast fyrir er bæði risastórt og afskaplega einfalt: Skipting gæðanna alls staðar og að öllu leiti. Við höfum svitnað fyrir hagvöxtinn en þurft að sjá á eftir arðinum sem við sköpuðum með okkar erfiðisvinnu renna í vasa kapítalistanna.

Ef að SA halda að þau geti haft af okkur umsamdar hækkanir án þess að við breytumst í flóðbylgju búna til af samstöðu fjöldans þá erum við tilbúin til að sýna þeim, enn eina ferðina, hvar styrkleiki okkar liggja. Verði þeim að góðu ef þau efna til ófriðar við okkur.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: