Stjórnvaldið, Samkeppniseftirlitið, hefur brugðist okkur.
Ragnar Önundarson skrifar:
Fákeppni felur í sér forréttindaaðstöðu: Verðhækkanir verða auðveld leið til hagnaðar. Samkeppniseftirlitið veit ekki að alvöru, virkir markaðir eru ófrávíkjanleg forsenda þess markaðskerfis sem við viljum njóta. Þeir meintu kostir voru aðalástæða inngöngunnar í EES, ásamt betri útflutningskjörum.
Bankar, tryggingafélög, kortafélög, skipafélög, flugfélög, matvöruverslanir, byggingavöruverslanir, olíufélög, ferðaskrifstofur, steypustöðvar, byggingarverktakar, bifreiðaumboð, afurðastöðvar o.s.frv. o.s.frv., alls staðar gildir sjálftaka forréttindafólksins á kostnað almennings.
Stjórnvaldið, Samkeppniseftirlitið, hefur brugðist okkur. Það framkvæmir evrópsk samkeppnislög hugsunarlaust og vélrænt. Samþykkir allar óskir um samruna og yfirtökur, eins og hin ófrávíkjanlega forsenda um virka markaði sé fyrir hendi.
Forstjórar fákeppnisfélaganna átta sig fljótt á að verðsamkeppni eyðileggur ekki bara afkomu félagsins sem þeim er trúað fyrir, heldur allrar greinarinnar. Hluthafarnir munu álykta að forstjóri sem efnir til verðsamkeppni sé ekki starfi sínu vaxinn.
Þetta er skuggahliðin á EES aðildinni, sjálftaka forréttindafólksins. Hún er bein afleiðing þess að ESB-reglum er beitt hugsunarlaust á okkar örsmáa markaði. Við þyrftum að hafa innbyggða hvata til að fyrirtæki forðist að vera skilgreind fákeppnisfélög og í markaðsráðandi stöðu. Þetta mætti gera með hærri skatti á fenginn arð frá slíkum félögum en frá öðrum. Slíkur skattur leggst ekki á félagið og á þar með ekki að veltast út í verðlagið.