„Týr í Viðskiptablaðinu telur nýjustu hækkun hlutdeildarlána Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra ekki til neins fallna nema að vinna gegn verðbólguviðnámi Seðlabankans. Það eigi þó ekki að koma á óvart, innviðaráðherra virðist lítið annnað gera en að bæta á verðbólgubálið,“ segir í Staksteinum Moggans. Þar á bæ er ljóst að Viðskiptablaðið er lesið. Vel og vandlega. Ekki síst ef þangað er hægt að sækja gagnrýni á ríkisstjórnina.
„Nefnd eru dæmi og byrjað á glænýrri samgönguáætlun til 15 ára „þar sem boðuð voru hvorki meira né minna en 909 milljarða króna útgjöld! Þar af er reiknað með að 263 milljörðum verði varið til samgangna á fyrstu fimm árum áætlunarinnar og ekki er gert ráð fyrir nema tíu nýjum jarðgöngum.“
Það gerðist aðeins nokkrum dögum eftir að ríkisstjórnin kynnti stórfenglegar aðgerðir gegn verðbólgu, þar sem boðaður var sparnaður á heilum 36 milljörðum í ríkisrekstri, um þriðjungur þess sem Alþingi bætti við fjárlagafrumvarpið í haust. „Sem sagt nokkrum dögum eftir að hafa, ásamt formönnum hinna ríkisstjórnarflokkanna, kynnt til leiks auman aðgerðapakka ósamstiga ríkisstjórnar gegn verðbólgu boðaði Sigurður Ingi 909 milljarða króna útgjöld.“
Týr kveðst yfirleitt reyna að temja sér það að líta hlutina jákvæðum augum, eins og sást þegar hann fóðraði Fenrisúlf. „En þessi skilaboð frá ráðherranum gefa því miður ekki tilefni til bjartsýni á að baráttan við verðbólguna verði skammvinn. Yfirvofandi kjaraviðræður og hótanir úr röðum herskáustu verkalýðsforingjanna auka heldur ekki á bjartsýnina.“