Guðrún Hafsteinsdóttir, sem á mánudag verður munstruð á hriplekan dall, það er ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, reynir allt hvað hún getur að þvo hendur sínar af því að hafa gengið erinda þrýstihóps í þingstörfum sínum.
Guðrún, sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, gekk erinda kjúklingaiðnaðarins, og kom í veg fyrir undanþágu Úkraínu um innflutning hingað á kjúklingakjöti. Við skörp mótmæli.
Guðrún skrifar í málgagn flokksins og þar segir meðal annars:
„Í okkar hreinu og heilnæmu matvöru eru fólgin mikil lýðheilsuleg og fjárhagsleg verðmæti.
Sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis hef ég sagt að það sé ríkur vilji Íslendinga að styðja við Úkraínu af öllum okkar mætti. Hins vegar er verulega ósanngjarnt að ætla að láta eina atvinnugrein bera þann stuðning uppi, það er að segja alifuglabændur. Stuðningurinn skal vera samfélagslegur.
Íslendingar styðja Úkraínu með margvíslegum hætti og það með sóma. Við höfum veitt fjölda flóttamanna skjól, sent ullarflíkur til Úkraínu, keypt olíuflutningabíla fyrir úkraínska herinn, gefið færanlegar rafstöðvar og nú síðast færanlegt hersjúkrahús, svo nokkuð sé nefnt.
Stjórnvöld veita aðstoð, fyrirtæki, frjáls félagasamtök og einstaklingar. Það er hinn eðlilegi farvegur í stað ráðstafana sem geta raskað verulega eða teflt í tvísýnu rekstrargrundvelli í landbúnaði þótt tímabundnar séu.“
Guðrún Hafsteinsdóttir gekk hér erinda annarra. Hún situr uppi með það.