- Advertisement -

Velmegunin mest Framsókn að þakka

- Sigurður Ingi segir hluta flokksmanna eiga erfitt með að sættast við lýðræðislega niðurstöðu.

Linda Blöndal.
Sigurður Ingi var í viðtali hjá henni í Þjóðbraut.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, var í viðtali hjá Lindu Blöndal í Þjóðbraut á Hrinbraut í kvöld. Framundan er miðstjórnarfundur flokksins. Gunnar Bragi Sveinsson sagði, í Svartfugli í gær, að hann vilji að Sigurður Ingi láti af formennsku í Framsókn og vilji hans er að Lilja Alfreðsdóttir verði næsti formaður Framsóknarflokksins.

Linda spurði Sigurð Inga hvers honum hafi ekki tekist að sætta þá hópa sem takast á innan flokksins og hafa gert frá því fyrir flokksþingið í fyrra.

„Þú gefur þér að það séu tveir hópar. Gunnar Bragi Sveinsson hefur ekki farið dult með að hann styður mig ekki sem formann,“ sagði Sigurður Ingi. Hann sagðist heldur ekki sammála Gunnari Braga um að gjá, sem er milli flokksmanna, breikki stöðugt.

Sigurður Ingi sagði að í Framsókn sé hópur sem hefur ekki sæst á lýðræðislega niðurstöðu. „Við breytum ekki því sem gerðist í apríl í fyrra þegar Sigmundur Davíð varð að segja af sér sem forsætisráðherra.“ Sigurður Ingi sagði að Sigmundi Davíð hafi ekki tekist að endurheimta það traust sem hann missti.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson:
Sigurður Ingi segir að honum hafi ekki tekist að endurheimta glatað traust.

Gunnar Bragi sagði, í Svartfugli í gær, að flokkurinn sé lítill og áhrifalaus. Hafi ekki einu sinni fengið umboð til að mynda ríkisstjórn. Sigurður Ingi sagði fylgið vera undir væntingum. „Velmegunin er okkur að stórum hluta að þakka,“ sagði Sigurður Ingi og sagðist þess vegna væri eðlilegt að Framsókn nyti meiri stuðnings. Hann benti á, og færði rök fyrir, að Framsókn hafi oft áður mæst illa í skoðanakönnunum.

Linda spurði hann um samband hans og Sigmundar Davíðs. „Það er ágætt. Við eigum þau samskipti sem við þurfum.“ Varðandi þingflokkinn sagði Sigurður Ingi að hann mætti vera samstilltari. Hann sagði þingflokkinn geta verið sterkan, með tvo fyrrverandi forsætisráðherra og aðra reynda þingmenn.

„Ég hef ekki séð stríðandi fylkingar, ég hef séð hóp sem kemur fram í fjölmiðlum og vega að mér og óskilgreindri forystu. Ég sé enga takast á við það fólk,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson í viðtalinu við Lindu Blöndal.

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: