Velkomin til ársins 2007
Jú, vegna þess að ríkisstjórn Samfylkingar og VG ákvað að endurreisa Ísland bóluáranna.
Gunnar Smári skrifar:
Stoðir, sem eru í eigu fólksins á bak við FL-Group (mínus Jón Ásgeir og Hannes Smárason) er stærsti eigandi bæði TM og Kviku, á um 10% í TM og 8% í Kviku. Aðrir eigendur eru mest lífeyrissjóðirnir, sem skokka ætíð hlýðnir á eftir bröskurunum, hlutabréfasjóðir í umsjón banka, tryggingafélög og annað fé án hirðis (svo það hugtak sé notað, fé í umsjón annarra en eigenda).
Í Kviku er næst stærsti eigandinn SNV Holding ehf., skammstöfun sem stendur fyrir Svanhildi Nönnu Vigfúsdóttur, sem ásamt fyrrum eiginmanni sínum, Guðmundi Erni Þórðarsyni, auðgaðist gríðarlega á kaupum á Skeljungi eftir Hrun og síðar með kaupum á hlutabréfum í VÍS, þar sem hluthafar greiddu sér út háar fjárhæðir út úr sjóðum félagsins. Af öðrum eigendum Kviku má nefna Boga Þór Siguroddsson, sem eitt sinn var framkvæmdastjóri Húsasmiðjunnar (skrifaði bókina Fjandsamleg yfirtaka um kaup Árna Haukssonar og Hallbjörn Karlsson á Húsasmiðjunni), keypti síðan Jóhann Rönning og hefur orðið umsvifameiri í viðskiptum á síðari árum. Af öðrum hluthöfum má nefna Gana ehf., sem er í eigu Tómasar Kristjánssonar, sem auðgaðist mikið á kaupum á Straumi eftir Hrun en ekki síður á fasteignum Ásbrúar á Keflavíkurflugvelli. Tómas varð eftir sameiningu einn af stærstu eigendum Heimavalla og er einn af þeim sem auðgaðist hefur hvað mest á hækkun húsaleigu í kjölfar Hrunsins, meginástæðu þess að fjöldi heimila hefur haldist undir fátæktarmörkum þrátt fyrir hækkun launa. Þarna eru líka kvótaerfingi, Berglind Björk Jónsdóttir, dóttir Jóns heitins Guðmundssonar í Sjólastöðinni; Höskuldur Tryggvason, kallaður Höddi, sem auðgaðist erlendis; og Magnús Kristinsson, útgerðarmaður úr Vestmannaeyjum og stór leikandi í braskbólunni miklu samhliða bankaránunum miklu.
Samanlagður hlutur þessara félaga ásamt Stoðum eru um 20%. En þetta er fólkið sem ræður stefnunni, stjórnar fjárfestingum hinna 80%. Í TM eru öngvir hluthafar aðrir en lífeyrissjóðirnir fyrir utan Stoðir meðal tuttugu stærstu, hlutabréfasjóðir og bankar. Nema hvað að félag í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur nær á listann, ekkju Sigurðar Einarssonar ríka í Vestmannaeyjum og stórtæks fjárfestis á síðustu árum. Lífeyrissjóðirnir eiga stærri hluti í TM en i Kviku, vel yfir helmings alls hlutafjár. Miðað við markaðsvirði félaganna í dag má ætla að lífeyrissjóðir eigi um helming í sameinuðu félagi, gætu tekið yfir stjórn þess ef þeir sameinuðust um stefnu.
En hverjir eru ráðandi í Stoðum, félaginu sem leitt hefur þessa sameiningu. Eigendur Stoða eru m.a. Jón Sigurðsson, fyrrum forstjóri FL-Group, Einar Örn Ólafsson, fyrrum starfsmaður Glitnis og forstjóri Skeljungs og Magnúsar Ármanns stórleikari í bólunni fyrir Hrun. Auk þeirra má nefna Þorstein M. Jónssyni aka Steina í Kók, fyrrverandi eiganda Vífilfells; Malcolm Walker, stofnanda og eiganda bresku verslunarkeðjunnar Iceland Foods; Örvar Kjærnested, fjárfesti og stjórnarmanni í TM; og Jóhann Örn Þórarinsson, forstjóra veitingarisans Foodco.
Þetta er fólkið sem verður ráðandi í sameinuðu fyrirtæki Kviku og TM. Sameiningin hefur keyrt upp markaðsvirði þessara félaga, meira að segja upp fyrir augljós bólueinkenni markaðarins í miðjum kóróna-samdrætti. Ef við sleppum Icelandair, þá hefur virði félagana í kauphöllinni hækkað um 37% frá því fyrir cóvid. Kvika hefur á sama tíma hækkað um 78% og TM um 80%. Og það er auðvitað engin leið að raunverulegt innra virði fyrirtækjanna hafa aukist svo mjög, bankar og tryggingafélög eru ekki að hækka í verði í öðrum deildum jarðar.
Í upphafi síðasta árs var sameiginlegt virði þessara félaga um 51,5 milljarðar króna en er í dag um 92,0 milljarða króna. Eign hluthafanna hefur því hækkað um 40,5 milljarða króna. Stoðir eru líka núorðið stærsti hluthafinn í Símanum og þar er sama sagan; Síminn hefur hækkað um 85% frá því fyrir cóvid. Líklega er enginn sem heldur því fram að það sé vegna þess að fjárfestar hafi áttað sig á að fyrirtækið hafi verið stórlega vanmetið áður. Þetta er, eins og annað sem Stoðir snertir, merki þess að þarna fara með stjórn mála menn sem eru þaulvanir að spila með markað, þar sem lífeyrissjóðir láta fáeina spákaupmenn etja sér út í allskyns foröð.
Eins og sjá má af þessum bólgueinkennum og þeim persónum sem eru helstu gerendur erum við aftur komin til 2007. Og hvers vegna? Jú, vegna þess að ríkisstjórn Samfylkingar og VG ákvað að endurreisa Ísland bóluáranna, viðhalda allri heimsku þeirra, óréttlæti og klíkum. Óligarkaveldið sem hrundi 2008 var endurreist.