Velferðarkerfið ekki leikvöllur braskara
Þú ert ólæs, þess vegna liggurðu þarna. Þetta er ekki okkur að kenna, heldur þér!
Nýfrjálshyggjan er aftur og aftur kynnt sem óháð fræði í fréttum Ríkisútvarpsins. Hér fær hún að halda því fram inngrip í húsnæðismarkaðinn séu alltaf varhugavert og að stjórnvöld eigi að halda sig fjarri þegar lóðabraskarar, spákaupmenn og leiguokrarar skapa sér sem allra mesta gróða á þessari grunnþörf mannsins, að eiga einhvers staðar höfði sínu að halla. Húsnæði er forsenda velferðarkerfisins. Það skiptir engu hvaða aðstoð við bjóðum fólki í vanda; læknisfræðilega, peningalega, félagslega; ef fólk er í húsnæðisvanda verður ekkert úr þeirri aðstoð; hún brennur upp í angist þess sem eru að missa heimili sitt eða eiga ekkert slíkt. Húsnæðiskerfið er grunnur velferðarkerfisins og alls ekki leikvöllur braskara eins og nýfrjálshyggjan heldur fram. Það er ömurlegur áróður hinna ríku að stjórnvöld eigi ekki að stýra uppbyggingu húsnæðis; best færi á því að félagsleg byggingafélög byggðu, leigðu og seldu húsnæði fyrir 4/5 hluta íbúanna. 1/5 hluti hinna ríkustu geta þá lifað á sínum húsnæðismarkaði í samlífi með bröskurunum, það er frumverkefni stjórnvalda að vernda alla aðra fyrir þessum lýð.
Í skúmaskot mannlegrar niðurlægingar
Og svo er það fjármálalæsið; að hin ríku séu læs (og þess vegna rík) en hin fátæku ólæs (og þess vegna fátæk); að málið sé ekki að jafna auð í samfélaginu heldur að jafna læsið … hvað er hægt að segja við svona viðurstyggilegum fordómum? Auðvitað er hægt að finna til með manninum sem gengur um með slíkt hatur innbyggt inn í samfélagssýn sína, en við ættum frekar að spyrja okkur hvað gengur fréttastofu Ríkisútvarpsins til að básúna svona viðbjóði? Að kalla á senditík hinna ríku til að tala um hin fátæku og saka þau um ólæsi er álíka og kalla á einhvern liðsforingja Klu Klux Klan til að ræða um stöðu svartra í Bandaríkjunum. Það er löngu kominn tími til að við rísum upp og krefjast þess að þetta lið verði hrakið af opinberum vettvangi og niður í þau skúmaskot mannlegrar niðurlægingar þar sem það á heima. Að klæða þetta upp í jakkaföt, vatnsgreiða og stilla upp sem prestum í aðalfréttatíma Ríkissjónvarpsins er hneyksli.
Námslán fyrir ríka, smálán fyrir fátæka
Ung kona af fátæku heimili sem vill mennta sig fær ekki námslán sem duga til framfærslu. Námslán eru miðuð við stöðu hinna betur settu, fólks sem nýtur margvíslegrar aðstoðar frá fjölskyldu sinni sem fátækar fjölskyldur geta ekki veitt. Unga fátæka konan þarf því að taka okurlán til að geta lokið námi, hún vinnur með námi en má ekki vinna um of, því þá skerðast lánin. Hún lætur sig hafa þetta; að vinna á skítakaupi fyrir einhvern kapítalistann og taka lán hjá einhverjum okraranum vegna þess að KKK-húskarlar hinna ríku hafa sagt henni að án menntunar muni hún aldrei geta unnið sig upp úr þeirri fátækt sem fjölskylda hennar hefur verið haldið í allt frá því formæður hennar voru vinnukonur á heimilum og búum hinna betur settu. Unga konan er fátæk kona í veröld ríkra karla, sem allir misnýta slæmar aðstæður hennar; hafa fé af henni sem vinnuafli, hafa fé af henni sem leigjenda, hafa fé af henni sem fátækri konu sem stendur aðeins til boða verstu lánin ef hún vill mennta sig … í samfélagi sem heldur fram að það sé jafnrétti til náms. Að saka hana svo um skort á fjármálalæsi og halda því fram ef hún væri eins fluglæs á fjármál og erfðaprins Engeyjarættarinnar, sem við öfum lyft upp í sæti fjármálaráðherra, er svívirða. Við eigum ekki að láta bjóða okkur að slíkt sé útvarpað á vegum Ríkisútvarpsins.
Með fjármálaráðherra sem er ólæs á fjármál
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra er algjörlega ólæs á fjármál. Hann á að baki viðskiptaferil sem samanstendur af tug milljarða króna gjaldþrotum, ekki bara við Hrunið heldur nær yfir alla þessa öld. Hann hefur hins vegar aldrei skaðast persónulega. Í hvert sinn sem í óefni var komið fékk hann símtal frá bankanum sínum og leiðbeiningar um hvernig hann gæti skotið sér undan persónulegri ábyrgð. Þetta er ekki fjármálalæsi; þetta er klíkuvæðing samfélags þar sem leikreglurnar eru sveigðar að þörfum hinna ríku og valdamiklu en notaðar til að kippa fótunum undan hinum valdalitlu og fátæku. Og svo eru senditíkur hinna ríku sendar til að standa yfir hinum fátæku, sem hafa misstigið sig og fallið ofan í drulluna, til að hrópa á hin föllnu: Þú ert ólæs, þess vegna liggurðu þarna. Þetta er ekki okkur að kenna, heldur þér!
Til hvers erum við að útvarpa svona svívirðu?