Mogginn, sem er óopinbert málgagn Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir formann hans harkalega í dag. Það er fyrir stefnu Bjarna í skattamálun og hversu tregur hann er til að lækka skatta. Það er vinna Óla Björns Kárasonar, þingmanns flokksins, sem er kveikjan að gagnrýninni nú, en Mogginn hefur áður gagnrýnt skattastefnu Bjarna.
„Óli Björn bendir á… ….að skattbyrði á tekjur einstaklinga hefur aukist gríðarlega. Þetta verður að sjálfsögðu að leiðrétta og vekur furðu að ekki skuli unnið að því með markvissum hætti að létta aftur byrðarnar af launamönnum.“
Bjarni kom ekki á óvart
Þetta er þyngdarpunkturinn í gagnrýni dagsins. Í Mogganum segir einnig: „Svar fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn, Óla Björns Kárasonar alþingismanns um þróun á skattbyrði árin 2009-2017, veldur töluverðum vonbrigðum. Svarið kemur þó því miður ekki á óvart. Á það hefur ítrekað verið bent, meðal annars á þessum vettvangi, að vinstristjórnin sem sat á fyrstu árunum eftir fall bankanna hækkaði skatta óhóflega og að þær stjórnir sem á eftir hafa komið
hafa ekki undið ofan af þeim skattahækkunum. Afleiðingin er sú að með batnandi efnahag og hækkandi launum landsmanna hefur ríkið aukið stórkostlega hlutdeild sína í þjóðarkökunni.“
Óhófleg skattheimta
Síðan segir í leiðara dagsins í Mogganum: „Óli Björn bendir líka á að fyrirhugað sé að lækka tryggingagjaldið enn frekar, en lækkun á því hefur gengið afar hægt sem er verulega íþyngjandi fyrir rekstur fyrirtækja í landinu, enda bætist tryggingagjaldið við miklar launahækkanir og umtalsverðar hækkanir á greiðslum í lífeyrissjóði. Þessar hækkanir eru vissulega jákvæðar fyrir launamenn og sýna hve hlutur þeirra hefur batnað á liðnum árum, en ríkið á ekki að njóta þeirra með þeim óhóflega hætti sem verið hefur.“