Neytendur Neytendastofa hefur í kjölfar eftirlits með verðmerkingum á veitingastöðum í og við miðbæ Reykjavíkur sektað níu veitingastaði vegna ástands verðmerkinga hjá þeim.
Veitingastöðum ber að hafa ávallt matseðil með verðskrá við inngöngudyr og hafa skal samhliða upplýsingum um verð drykkja magn þeirra. Þá ber veitingastöðum að tilgreina í matseðli þær veitingar sem seldar eru á staðnum annars er litið á að varan sé óverðmerkt. Selji veitingastaðir gosdrykki verður því að gefa það upp á matseðli bæði með verði og magnupplýsingum en nokkrir veitingastaðir slepptu því að tilgreina gos á matseðlum sínum. Gerðar voru athugasemdir við ástand verðmerkinga á meirihluta þeirra veitingastaða sem til skoðunar voru eftir fyrri heimsókn Neytendastofu. Sérstaklega mikið var um að það vantaði upplýsingar um magnstærðir í upplýsingum um drykkjarföng. Eftir seinni heimsókn hafði meirihluti veitingastaða lagfært verðmerkingar sínar en sekta þurfti níu af þeim veitingastöðum sem heimsóttir voru.
Þeir veitingastaðir sem komu ekki verðmerkingum í viðunandi horf samkvæmt fyrirmælum Neytendastofu hafa nú verið sektaðir um 50þúsund hver. Þeir veitingastaðir sem um ræðir eru Cafe Retro, Asía, Prikið, Lebowski Bar, veitingastaðurinn Kol, Hressingarskálinn, Dillon Whiskey bar, Chuck Norris grill og Casa Grande.