- Advertisement -

Reikningurinn sendur til Vopnafjarðar

 

Alþingi Steingrímur J. Sigfússon spyr sjávarútvegsráðherra um hverjar verða aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að mæta skaða sem hlýst af refisaðgerðum gegn Rússum.

„Mitt mat er að það geti ekki gengið að landverkafólk og veikburða og fámenn byggðarlög beri allan herkostnaðinn af utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar eða landsins. Það er ekki hægt að ætlast til þess að menn sendi reikninginn norður á Vopnafjörð þegar þeir taka ákvarðanir af því tagi sem þeir tóku með því að vera þátttakendur í þessum viðskiptaþvingunum. Þannig að ég spyr: Er ekki senn að vænta ákvörðunar í ríkisstjórn um mótvægisaðgerðir og í hverju verða þær fólgnar?“

„Við höfum lagt áherslu á og ég hef sagt í fjölmörgum viðtölum að sérstaklega séu til skoðunar annars vegar Vopnafjörður og hins vegar Djúpivogur, reyndar eru mismunandi aðstæður í þessum byggðarlögum, en þau séu þannig stödd að loðnubrestur annars vegar og hins vegar viðskiptabann Rússa og áhrif þess á sölu afurða frá Djúpavogi valdi því að við verðum að koma til móts við þau,“ svaraði ráðherra. Hann spurði á móti hvort Steingrímur gæti ekki komið með tillögu um hvað beri að gera.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Hæstvirtur ráðherra vill að ég komi með uppbyggilegar tillögur. Já, ég skal gera það. Það á að setja landverkafólkið á laun, á tryggingu, að minnsta kosti í sambærilegan tíma og það hefði haft vinnu á sæmilegri vertíð við frystinguna og skoða hvaða áhrif þetta hefur á heilsárstekjur þeirra og það á að bæta sveitarfélögunum upp tekjutap vegna tapaðs útsvars og aflagjalda. Það eru lágmarks mótvægisaðgerðir,“ sagði þingmaðurinn.

„Það er gott að við erum þó sammála um það að það er fyrst og fremst landverkafólkið sem verður fyrir tjóni af völdum annars vegar loðnubrestsins sem hefði jú getað gerst hvort eð var og er því miður að gerast og hins vegar þeim aðgerðum sem Rússar gripu til gagnvart okkur og hafa augljóslega mest áhrif á Djúpavogi eins og sakir standa,“ svaraði ráðherrann.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: