- Advertisement -

VB: Stöðvun hvalveiða gengur gegn rétti okkar um nýtingu sjávarafurða

Því ítreka ég, hvaða veiðar sjávarafurða verða bannaðar næst á grundvelli dýraverndunarsjónarmiða.

Vilhjálmur Birgisson.

„Ég held að við sem þjóð þurfum að spyrja okkur margra spurninga í ljósi þess að við höfum byggt okkar lífsafkomu töluvert upp á veiðum og vinnslu sjávarafurða,“ skrifar Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Vilhjálmi þykir ekki að við eigum að hætta hvalveiðum. Hann óttast að ef við hættum hvalveiðum komi annað á eftir því.

„Þessar spurningar geta verið t.d. hvað næst? Mun koma krafa um að banna t.d. þorskveiðar í net eða línu og eða botnvörpu út frá dýraverndunarsjónarmiðum?

Því ítreka ég, hvaða veiðar sjávarafurða verða bannaðar næst á grundvelli dýraverndunarsjónarmiða.

Ef ég skil þessa skýrslu um hvalveiðar þá drepast tæp 70% dýranna samstundis.

Að sjálfsögðu þarf að reyna að koma algerlega í veg fyrir að dýr þjáist eins og kostur er við aflífun og ég trúi því að fulltrúar Hvals muni leggja sig fram við að ná þessum 70% upp í 100% þótt það geti orðið krefjandi verkefni.

Við sem fiskveiðiþjóð verðum að tryggja að við getum nýtt okkar sjávarafurðir í samræmi við veiðiráðgjöf frá Hafrannsóknarstofnun og við þurfum að standa vörð um nýtingarrétt á okkar auðlindum.

Það er rétt að geta þess að yfir 120 manns höfðu atvinnu á síðustu hvalvertíð og meðallaun á síðustu vertíð hjá verkamanni voru um 1,7 milljón á mánuði en vertíðin stendur yfir í rúma þrjá mánuði og því um umtalsverða tekjumöguleika að ræða fyrir verkafólk yfir hávertíðina.

Mér sýnist að útsvarstekjur Akraneskaupstaðar og Hvalfjarðarsveitar hafi t.d. numið tugum milljóna á síðustu vertíð. Rétt er líka að rifja upp að Hvalur seldi hvalaafurðir á þessu ári fyrir tæpa 3 milljarða.

Munum að við byggjum okkar velferðarþjóðfélag upp á öflugum gjaldeyrisskapandi atvinnugreinum og það er með gjaldeyrisskapandi atvinnugreinum sem við náum að byggja upp alla nauðsynlega innviði samfélagsins.

Allt tal um bann við hvalveiðum sem byggðar er á veiðiráðgjöf Hafrannsóknarstofnunnar gengur gegn rétti okkar til að nýta okkar sjávarauðlindir og tekjuöflun. Nægir í því samhengi að ítreka að meðallaun verkafólks hjá Hval voru 1,7 milljón á mánuði í síðustu vertíð og útsvarstekjur sveitarfélagnna námu tugum milljóna.

Því ítreka ég, hvaða veiðar sjávarafurða verða bannaðar næst á grundvelli dýraverndunarsjónarmiða.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: