Greinar

Vaxtaverkir í Framsóknarflokki

By Miðjan

July 19, 2014

Viðhorf Á síðasta kjörtímabili voru tíðar fréttir af vaxtaverkum Vinstri grænna. Í kosningunum 2009 hafði flokkurinn vaxið mikið. Fékk fjórtán þingmenn, var með níu þingmenn eftir kosningarnar 2007 og fimm þingmenn eftir kosningarnar 2003. Þingmönnum hafði því fjölgað úr fimm í  fjórtán á aðeins sex árum. Margt af því fólki sem bættist við hafði litla eða enga reynslu af stjórnmálum. Og það sem kannski skipti meira máli, fólkið þekktist ekki, þekkti ekki hvert annað. Enda urðu árekstrar. Fólk hætti i flokknum, meira að segja þingmenn gengu úr honum. Fjölgað hafði í þingflokknum, hann varð hluti af ríkisstjórn, sumir þingmannanna höfðu miklar væntingar, væntingar sem ekki gengu eftir.

Framsóknarflokkurinn glímir við svipaðan vanda og VG gerði. Þó er sá munur á, að þingflokkur Framsóknarflokkinn heldur saman, allavega enn og ekki eru sjáanleg nein teikn um annað en svo verði. Á sex árum hefur þingmönnum flokksins fjölgað úr sjö í nítján. Voru sjö eftir kosningarnar 2007, níu eftir kosningarnar 2009 og eru nú nítján. Sama er að segja um þingflokk Framsóknarflokksins nú og sagt var um Vinstri græn á síðasta kjörtímabili. Þar er samankomið fólk sem þekktist ekki eða lítið, fólk sem hefur ekki mikla reynslu af stjórnmálum. Höskuldur Þór Þórhallsson er reyndastur þingmanna Framsóknarflokksins, en hann var fyrst kjörinn á þing árið 2007. Eygló Harðardóttir er næstreyndasti þingmaður flokksins, tók sæti á Alþingi 2008, eftir að Guðni Ágústsson sagði af sér.

Nú skipa nítján þingmenn þingflokk Framsóknarflokksins. Þegar rúmt er að baki reynir á hvernig hópurinn verður. Sumir þingmannanna eru sáttir, aðrir vilja meira og að hlutirnir gangi hraðar fyrir sig, einsog gengur. En það þarf engar bollalengingar. Það berast fréttir af úrsögnum úr Framsóknarflokknum.  Þorsteinn Magnússon varaþingmaður er farinn, Ómar Stefánsson, sem langt árabil gegndi trúnaðarstörfum fyrir flokkinn í Kópavogi, Ásta Hlín Magnúsdótir, fyrrum formaður Sambands ungra Framsóknarmanna og dóttir Líneikar Önnu Sævarsdóttur þingkonu, hefur sagt sig úr flokknum, Hreiðar Eiríksson sem skipaði eitt af efri sætum framboðslista flokksins í Reykjavík, en afþakkaði sætið áður en kom til kosninga, hefur sagt bless og eflaust fleiri.

Síðast glímdi VG við mikla fjölgun þingmanna og flokksmanna. Nú er það Framsóknarflokkurinn. Hjá VG fór svo að Steingrímur J. Sigfússon varð að hætta sem formaður. Flokkurinn var illa laskaður eftir átökin, innanhúságreininginn. Nú er það hlutverk Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að halda sínu fólki saman. Sama er sagt um hann og sagt var um Steingrím, að hann uni sér ekki hvíldar, vinni of mikið, taki ekki frí og þess háttar. Að lokum fór svo að flokksmenn sögðu stjórnarsetuna hafa breytt Steingrími svo að hann varð nánast óþekkjanlegur. Þá er spurt, fer eins fyrir Sigmundi Davíð, breytist hann svo að nánasta samstarfsfólk segi hann allt annan mann, eftir ákveðinn tíma? Tekst honum að halda flokknum saman, ekki reyndari en hann er. Reynsluboltanum Steingrími tókst það ekki, ekki að fullu, svo mikið er víst. Tekst Sigmundi það, eða slekkur hann eldana áður en þeir verða að stórbruna?