- Advertisement -

Vaxtahækkunin eykur líkur á hærri verðbólgu

Marinó G. Njálsson:

Mér finnst helst eins og Seðlabankinn skilji ekki hvernig verðbólga fyrri hluta þessa árs er að halda uppi verðbólgu til ársloka, ekki líklegar breytingar á vísitölu neysluverðs í næstu fimm mælingum sem birtar verða.

Seðlabankinn segist þurfa að ná niður verðbólguvæntingum og hækka því vexti sína. En eru greiningaraðilar með væntingar um háa verðbólgu næstu mánuði?

Hver sem vill getur reiknað út hver líkleg verðbólga verður einhverja mánuði fram í tímann. Þetta eru ekki væntingar heldur hreinn útreikningur. Þannig vitum við 11 mælingar af 12 fyrir næstu verðbólgutölur núna í ágúst, 10 af 12 fyrir september og svona er hægt að halda áfram. Að greiningardeildir og aðrir sem velta verðbólgutölum fyrir sér, geri ráð fyrir að verðbólga hækki í ágúst og líklega september líka, hefur ekkert með svakalegar væntingar þeirra til mælinga á vísitölu neysluverðs. Staðreyndin er að hækkun vísitölu neysluverðs milli júlí og ágúst á síðasta ári var frekar lítil (0,29%) og þó ekki sé útilokað að hún verði minni núna, þá er meiri líkur á að hún verði meiri. Spá mín er 0,35%, en hún var gerð fyrr á þessu ári og hef ég ákveðið að endurskoða hana ekki þrátt fyrir viss jákvæð merki.

Hækkun vísitölu neysluverðs milli ágúst og september í fyrra var mjög lítil eða 0,09%. Algengara er að hún sé hærri en hækkun milli júlí og ágúst og því er þetta sjaldgæf undantekning og mesta líkur á að hækkun milli ágúst og september í ár verði meiri. Þetta hefur ekkert með væntingar að gera, heldur tölfræði.

Þú gætir haft áhuga á þessum

…því miður er rökleiðsla bankans röng.

Það sem skiptir hins vegar mestu í líklegri verðbólguþróun næstu mánaða er að 6 mánaðaverðbólga á síðari hluta síðasta árs var tiltölulega lág (6,5%) og þó verðbólga þessa mánuði núna verð mun lægri (spá mín er 2,9%), þá mun ársverðbólga í árslok enn verða 7,0%. Ástæðan er að 6 mánaðaverðbólga fyrri hluta árs var 11,3%.

Kannski er Seðlabankinn að reyna að lækka verðbólguna síðustu 6 mánuði ársins með vaxtahækkuninni í dag, en því miður er rökleiðsla bankans röng. Verðbólgan er áfram mikil vegna fortíðarinnar, ekki vegna framtíðarinnar. Þeir sem eru að spá því að verðbólga verði allt að 8% eru í raun að spá MIKILLI lækkun verðbólgu milli ára, þ.e. verðbólgu „væntingar“ þeirra eru jákvæðar, ekki neikvæðar. (Verði verðbólgan í árslok 8%, þýðir það að 6 mánaðaverðbólga lækkar úr 6,5% í um 3,9%, sem er 40% lækkun.)

Sé Seðlabankinn hins vegar að reyna að vinna á breytingum á vísitölu neysluverðs á næsta ári með vaxtahækkuninni, þá er það eiginlega furðulegt, þar sem ALLIR greiningaraðilar reikna með verulegri lækkun verðbólgu milli ára. Í júní í ár var 12 mánaðaverðbólga 8,86% og ýmsar spár gera ráð fyrir að hún verði komin vel niður fyrir 6% og jafnvel niður fyrir 5% í sama mánuði 2024. Mín spá gerir ráð fyrir að hún verði komin niður fyrir 4%, sem gæti verið full bjartsýnt.

Hvaða væntingar eru þetta þá sem Seðlabankinn er að tala um? Verð að viðurkenna, að ég hef ekki hugmynd um það. Mér finnst helst eins og Seðlabankinn skilji ekki hvernig verðbólga fyrri hluta þessa árs er að halda uppi verðbólgu til ársloka, ekki líklegar breytingar á vísitölu neysluverðs í næstu fimm mælingum sem birtar verða. Það er líka skoðun mín, að hækkun vaxtanna núna auki frekar líkur á hærri verðbólgu, því hafi einhver haft borð fyrir báru til að bregðast við hækkun vaxtakostnaðar, þá mun þeim aðilum alveg örugglega fækka og munu telja sig þurfa að hækka verð vöru og þjónustu. Ég held að Seðlabankinn sé að skjóta sjálfan, hagstjórnina og hagkerfið í fótinn með þessari ákvörðun.

Marinó G. Njálsson birti greinina á eigin Facebooksíðu. Greinin er birt hér með góðfúslegu leyfi Marinós. Fyrirsögnin er Miðjunnar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: