„Ég vil nota þetta tækifæri til að segja að engin hvítbók um fjármálakerfi getur orðið marktæk, getur orðið pappírsins virði, sem ekki tekur á verðtryggingunni sem grafið hefur um sig og hefur sýnt sig hafa eyðingarmátt gagnvart heimilum landsmanna og atvinnufyrirtækjum,“ sagði Ólafur Ísleifsson, þingmaður Flokks fólksins og doktor í hagfræði, við umræður um væntanlega hvítbók um fjármálamarkaðinn hér á landi.
Lántaki sviptur fjárforræði
Ólafur talaði áfram: „Skavankarnir á verðtryggingunni eru fleiri en svo að rúm sé til að telja þá alla við þetta tækifæri. Öll áhætta vegna verðhækkanna er felld á veikari aðila lánasamnings, en sterki aðilinn ber enga slíka áhættu. Lántakar eiga þess engan kost, frú forseti, að verjast þessari áhættu. Nei, frú forseti, hin víðtæka ábyrgð sem lántaki er látinn gangast undir og ófyrirsjáanleiki um greiðslur er slík að stappar nærri að lántaki sé sviptur fjárforræði á lánstímanum. Óbeinir skattar rata beina leið inn í afborganir og greiðslur og hækka þær ef minnsta tilefni er til. Varnarleysi lántaka er algjört eins og dæmin sýna. Þetta eru einstaklingar og heimili og atvinnufyrirtæki landsmanna, lítil og meðalstór.“
Engar reikniformúlur eru til
„Vextir á verðtryggðum lánum eru ákveðnir, ákveðnir, frú forseti, án nokkurrar tengingar eða samanburðar við umheiminn þar sem skuldbindingar af þessu tagi gagnvart einstaklingum og litlum fyrirtækjum fyrirfinnast ekki,“ sagði Ólafur næst og svo þetta:
„Við teljum ástæðu til að banna lántökur í erlendri mynt þegar við á. Verðtryggða krónan á ekkert sameiginlegt með krónunni nema nafnið. Hún er eins og hver önnur erlend mynt. Engar reikniformúlur hafa verið gefnar um hvernig beri að reikna verðtryggð lán af hálfu opinberra aðila. Eftirlit með þessum hluta markaðarins sýnist í skötulíki. Hvítbókin hlýtur að geyma markvert framlag um verðtrygginguna þótt ekki væri nema umfjöllun um hvernig fella mætti Ísland í hóp vestrænna ríkja, nágrannaríkja okkar í fjármálum.“