Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:
Ég er þakklát fyrir að hafa kynnst Agnieszka Ewa Ziółkowska sem nú hefur starfað sem varaformaður Eflingar í tæpt ár, og fyrir að fá að berjast með henni fyrir réttlátara samfélagi.
„Agnieszka Ewa Ziólkowska, varaformaður Eflingar, er ein fjögurra kvenna sem tekur þátt í pallborðsumræðunum á fimmtudaginn. Hún er fyrsta konan af erlendum uppruna sem hefur gegnt embætti varaformanns í félaginu. Agnieszka hefur búið á Íslandi í þrettán ár. Fyrstu árin starfaði hún við þrif hjá ISS. Þar voru flestir starfsmennirnir konur af erlendum uppruna. Margar þeirra menntaðar en fengu ekki störf í samræmi við menntun sína hér á landi að sögn Agnieszka.
Agnieszka segir starfsöryggið oft takmarkað og tekur sem dæmi að þar sem hún var ekki með fastráðningu við þrifin hafi vinnuveitandinn hringt í hana að morgni og sagt henni hvert hún ætti að fara og þrífa. Þannig hafi hún kynnst mörgu fólki, brotum á réttindum fólks og ólíkum aðstæðum á vinnustöðum. „Ég sá líka hversu óréttlátt launakerfið er oft. Að þeir sem unnu mest og erfiðustu störfin fengu lægstu launin á meðan aðrir sem höfðu það frekar náðugt fengu hærri laun,“ segir Agnieszka.“
Og:„Agniezka segir að það séu margar hindranir sem konur af erlendum uppruna mæti á íslenskum vinnumarkaði og eins í samfélaginu. Til að mynda skorti þær yfirleitt bakland sem íslenskar konur hafa. Svo sem fjölskyldu sem er til staðar þegar eitthvað bjátar á
eða varðandi aðstoð með börn. Þær upplifi sig því oft einar og varnarlausar og einfaldir hlutir geta orðið flóknir vegna þessa.“