Ole Anton Bieltvedt skrifar:
Stundum eru menn að tala um bananalýðveldi. Svona í háði og með lítilsvirðingu. Þau eiga víst að vera helzt í Afríku og á öðrum framandi slóðum. En, þurfum við að leita svo langt til að finna eitt?
Bjarni Benediktsson, sem verið hefur áhrifamesti stjórnmálamaður landsins síðustu 10 árin – var undarlegt nokk til þess valinn af umtalsverðum hluta þjóðarinnar – , varð að segja af sér ráðherradómi, fjármálaráðherraembættinu, í október í fyrra, vegna vanhæfi.
Sá, sem kvað upp þann dóm, að Bjarni væri vanhæfur, var ekki minni maður en Umboðsmaður Alþingis. Af þessu tilefni sagði Bjarni 10. október í fyrra: „ Ég tel mikilvægt að virða álit Umboðsmanns Alþingis, sem er sérstakur trúnaðarmaður þingsins“. Vel mælt, en meining greinilega lítil.
14. október, líka í fyrra, sagði Bjarni af sér embætti fjármálaráðherra, en einhenti sér, í sömu svipan, sama dag, í embætti utanríkisráðherra. Vanhæfur, sem sagt, í eitt ráðherraembætti, en flottur í annað. Nú, sem helzti fulltrúi þjóðarinnar víða um heim. Ein flott íslenzk flétta. A la Bjarni Ben og D. Fannst öllum þetta í lagi?
Ég leyfi mér að fullyrða, að svona flétta, sem aðeins finnst í lægstu skúffu siðferðis, sæmdar og sjálfsvirðingar, hefði varla geta gerzt í neinu öðru Evrópulandi, alla vega ekki vestrænu, allra sízt öðru norrænu ríki.
7 norskir ráðherrar hafa orðið að segja af sér síðustu 3 árin
Við teljum Norðmenn náskylda okkur, nána frændur, og, að mikil líkindi séu milli þeirra og okkar.
Í stjórnartíð Jonas Gahr Støre, formanns norska verkamannaflokksins og forsætisráðherra Noregs frá því í október 2021, hafa 7 ráðherrar verið neyddir til að segja af sér.
Menn kunna að velta því fyrir sér, hverjir það séu og fyrir hvað:
- Ingvild Kjerkol. Það kom í ljós, að hún hafði notað texta annars manns í sinni meistaragráðuritgerð, án þess að geta þess, við háskólanám, einhverjum áratugum áður. Burt!
- Sandra Borsch. Sama saga, 10 árum áður. Burt!
- Anniken Huitfeldt. Eiginmaður hennar hafði stundað umtalsverð hlutabréfaviðskipti meðan hún sat í rikisstjórn. Hún hefði getað lekið einhverjum upplýsingum, sem eiginmaðurinn hefði geta nýtt sér, misnotað, við sín hlutabréfaviðskipti. Slíkt lá þó ekki fyrir. Burt!
- Ola Borten Moe. Keypti hlutabréf fyrir um 5 milljónir íslenzkra króna í vopnaverksmiðju, sem norska ríkið gerði svo stóran kaupsamning við. Burt!
- Anette Trettebergstuen. Útvegaði nokkrum vinum sínum, eða mælti með þeim, til opinberra starfa. Misnotkun á valdaaðstöðu. Burt!
- Odd Roger Enoksen. Hann var varnarmálaráðherra Noregs til 2022. Þá bárust fregnir af því, að hann hefði haldið við miklu yngri konu 22 árum áður, árið 2000. Siðlaust. Burt!
- Hadia Tajik. Það kom í ljós árið 2022, að hún hafði nýtt sér sérstök skattfríðindi 2006-2010, vegna meintrar búsetu úti á landi þá og kostnaðar við tvöfalt íbúðahald, sem ekki lá að fullu fyrir. Burt!
Síðustu 80 árin hafa aðeins 6 íslenzkir ráðherrar orðið að segja af sér – 2 hafa þvegið hendur sínar og eru mættir galvaskir til leiks aftur
7 afsagnir í Noregi á þremur árum, hér hafa aðeins 6 ráðherraafsagnir átt sér stað á öllum lýðveldistímanum; frá 1944.
Hvað segir þetta okkur? Ekki skyldi íslenzk spilling vera svarið?
Það vekur hér athygli, að tveir ráðherrar, sem voru neyddir til að segja af sér, Sigmundur Davíð, 2016, og Sigríður Andersen, 2019, geysat nú fram á stjórnmálavöllinn með boðskap um að skynsemi, ráðvendni og ábyrgð skuli í hávegum höfð.
Sigmundur Davíð hröklaðist frá vegna hneykslismála tengdum Panamaskjölunum og fyrir það, að hafa farið með ósannindi, logið, í Kastljósþætti. Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu, að Sigríður hefði brotið lög, valið sína menn, a la D, fremur en þá hæfustu, við ráðningu í mikilvæg dómarastörf.
Er þetta allt nú grafið og gleymt? Er Sigmundur Davíð nú allt í einu flottur fýr og Sigríður fyrirmyndarkona?
Ný skítaplott Bjarna Ben, Jóns Gunnarssonar og Kristjáns Loftssonar
Flestir telja að ráðherraembætti sé fullt verkefni fyrir venjulegan mann, enda fylgir mikil þýðing og ábyrgð störfum ráðherra. Bjarni Ben skellti sér þó ekki aðeins í forsætisráðumeytið, heldur bætti hann við, svona með fingrasmelli og glæsilegri handarsveiflu, fyrst Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og svo Matvælaráðuneytinu, sem lengi var kallað landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti og spannar vítt og breitt.
Ekkert mál fyrir Bjarna, hann kippti bara föllnum vini og samherja, Jóni Gunnarssyni, sem þurfti að reisa við, hvort sem var, tryggja góð laun og nota mætti í krítísk verk, skítaverk, enda með bágborna ímynd fyrir, inn í sína D sveit, og fól honum svo eitt ráðuneytið. Matvælaráðuneytið.
Það má reyndar um það deila, hvort menn geti tekið að sér svo mörg ráðuneyti, að þeir ráði ekki neitt við neitt, og ráði svo bara menn, líka þá sem telja má með öllu vanhæfa, til að reka ráðuneytin.
Hvað skyldi Umboðsmanni Alþingis segja um þessa aðferðafræði? Góð stjórnsýsla!?
Burt með þennan mann og hans lið!
Í Noregi var ráðherra rekinn fyrir að mæla með eða hlutast til um ráðningu vinar eða vina til ríkisins. Þar þótti það siðlaust og ekki við hæfi, brot á góðri ráherrahandhöfn, en hvað varðaði Bjarna um það.
Nú þurfti að plotta fljótt og vel, tryggja traustum stuðningsmanni og fjárhagslegum velunnara Sjálfstæðisflossins hvalveiðileyfi, sem reyndar meirihluti þjóðarinnar er á móti, hvað með það, helzt til eilífðarnóns.
Til þess þurfti auðvitað vana menn, þá, sem kunna nokkuð til vafasamra verka, skítaverka, Jón Gunnarsson tryggður, og þá þarf Bjarni bara að fá einhvern meðráðherra í plottið, til að skrifa undir, Bjarni gerir það auðvitað ekki sjálfur. Ég trúi því reyndar ekki, að Þórdís Kolbrún láti til leiðast, þá væri hennar góða ímynd rokin út í veður og vind líka. Það kemur í ljós.
Eru menn ekki að verða búnir að fá nóg af Bjarna Ben og þessu spillingar- og klíkuliði!?? Er ekki kominn tími til að hafna honum með öllu og í leiðinni öllu því siðleysi og þeirri spillingu, sem Bjarni Ben og Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir!??? Burt með hann og hans spillta lið, segi ég!!
Höfundur er samfélagsrýnir og dýraverndarsinni