- Advertisement -

Varaþingmaður segir Sjálfstæðisflokkinn brenna eigin hugsjónir á báli

Við þurfum á daglegri áminningu að halda, því meðan bálkösturinn stækkar eykst hættan á að við munum sjálf lenda í eldinum.    

Arnar Þór Jónsson.

Arnar Þór Jónsson, fyrsti varamaður Bjarna Benediktssonar á Alþingi, heggur enn að eigin flokki og forystu hans.

„Í undirgefni og fylgispekt við erlent skrifstofuveldi hyggjast Alþingismenn, með stuðningi embættismanna íslenska ríkisins, leggja stjórnarskrá lýðveldisins á bálköstinn með því að samþykkja frumvarp sem veitir erlendum reglum almennan forgang umfram íslensk lög. Með því að standa að framlagningu slíks frumvarps leggur Sjálfstæðisflokkurinn stefnu sína og hugsjónir á bálið. Yfir brunarústunum mun forysta flokksins og þingmenn vonandi sjá sóma sinn í því að segja sig úr flokknum eða leggja til að fyrri hluti nafns hans verði þurrkaður út svo að heitið verði aðeins „Flokkurinn“.“

Þetta skrifar Arnar Þór í morgun. Sjá hér:

Þú gætir haft áhuga á þessum

Arnar Þór:

Samfélag sem er helsjúkt af meðvirkni, veiklyndi, undirlægjuhætti, hjarðhugsun og hjarðhegðun á að verðlauna þá sem sýna getu og vilja til sjálfstæðrar hugsunar, sjálfstæðrar sköpunar og þor til að fara eigin leiðir. 

Í færslu hér um daginn spurði ég hvort allt væri til sölu, hvort okkur væri ekkert heilagt og hvort menn væru jafnvel tilbúnir að selja sjálfsvirðingu sína, bregðast frumskyldum sínum, til að þóknast öðrum. Í gær nefndi ég félagslega einangrun og sjúklegan ótta sem mögulegar skýringar á því að menn eru eins og skjálfandi kjötbúðingar gagnvart yfirvaldi og ætluðu almenningsáliti. 

Mótþróaþrjóskuröskun?

Það var því hressandi að heyra ágætan vin minn segja í gær að hann ,,myndi heldur borða upp úr ruslatunnum“ en að láta aðra segja sér hvað hann mætti segja og gera. Í nútímaskólakerfi yrðu slík ummæli sjálfsagt til þess að viðkomandi yrði leiddur inn á skrifstofu sálfræðings og stimplaður með mótþróaþrjóskuröskun. Í stað þess að berja frjálsan vilja úr fólki og sjúkdómsvæða sjálfstæðisþrána ætti hvetja til gagnrýnnar hugsunar. Samfélag sem er helsjúkt af meðvirkni, veiklyndi, undirlægjuhætti, hjarðhugsun og hjarðhegðun á að verðlauna þá sem sýna getu og vilja til sjálfstæðrar hugsunar, sjálfstæðrar sköpunar og þor til að fara eigin leiðir. 

Hugsjónir sem brennifórn

En því miður er sá tímapunktur ekki enn kominn og við leggjum okkur af alefli fram við að fylgja þeim siðum sem háværustu siðapostularnir vilja halda á lofti. Í undirgefni og fylgispekt við erlent skrifstofuveldi hyggjast Alþingismenn, með stuðningi embættismanna íslenska ríkisins, leggja stjórnarskrá lýðveldisins á bálköstinn með því að samþykkja frumvarp sem veitir erlendum reglum almennan forgang umfram íslensk lög. Með því að standa að framlagningu slíks frumvarps leggur Sjálfstæðisflokkurinn stefnu sína og hugsjónir á bálið. Yfir brunarústunum mun forysta flokksins og þingmenn vonandi sjá sóma sinn í því að segja sig úr flokknum eða leggja til að fyrri hluti nafns hans verði þurrkaður út svo að heitið verði aðeins „Flokkurinn“. Vinstri grænir hafa sömuleiðis lagt hugsjónir sínar um frið, hlutleysi og herleysi á þennan sama bálköst, gengið í þjónustu Nato og talað eins og stríðsæsingamenn. Með framgöngu sinni síðustu misseri og ár hafa Samfylking, Viðreisn og Píratar undirstrikað að þau starfa ekki í þágu íslenskra kjósenda heldur fyrir erlenda hagsmuni. Í stuttu máli snúast íslensk stjórnmál ekki um stefnumörkun, heldur hentistefnu. 

Andvaraleysi leiðir til glötunar

Svo tekinn sé upp þráðurinn frá því í gær, þá útskýra ótti og einangrun þessa hegðun ekki að öllu leyti. Þarna vegur einnig þungt djúpstæð þörf okkar til að passa í hópinn, vera samþykkt af stofnunum sem við teljum geta haft áhrif á stöðu okkar, efnahag og velferð. Þetta er í sjálfu sér mannleg þörf og skiljanleg en framhjá því verður ekki horft að þessi tilhneiging hefur leitt menn til að berja niður eigin samvisku og aftengja sjálfstæða hugsun til að geta hrópað í kór með öðrum til stuðnings harðstjórum, stríðsherrum og illvirkjum, til persónulegrar þátttöku í skelfilegum ódæðisverkum, nornabrennum, barnsfórnum, umskurði kvenna og falsguðadýrkunar í öllum myndum.

Lokaorð

Það var greinilega af góðri ástæðu sem fyrsta boðorðið var sett efst á listann. Við þurfum á daglegri áminningu að halda, því meðan bálkösturinn stækkar eykst hættan á að við munum sjálf lenda í eldinum.      


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: