Varaþingmaður sár yfir verkum eigin flokks
„Nú er hrósað happi og hamingju yfir því að Ísland sé lágvaxtaland. Hver er hamingjan af slíku? Að heimili séu að niðurgreiða lánsfé fyrirtækja?“
Stjórnmál / „Það var sárt að sjá Sjálfstæðisflokkinn standa að síðustu skattahækkun á fjáreignatekjur, í þjónkun við þá sem vilja ekki skilja eðli fjáreignatekna. Frjáls sparnaður er ekki frjáls gæði. Óhófleg skattlagning dregur úr frjálsum sparnaði og leiðir til bótavæðingar meðal þegna og útgjalda fyrir ríkissjóð,“ skrifar þingmaðurinn fyrrverandi og núverandi varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, Vilhjálmur Bjarnason. Skrifin eru birt í Mogganum í dag.
„Og enn er vilji til að herða skattlagningu fjáreignatekna af sparifé. Þá færist land og þjóð frá siðuðu samfélagi til vanþróaðs ástands, þar sem lýðsleikjur færa verðmæti til að sínum geðþótta,“ segir einnig í grein Vilhjálms, sem birt er í Mogga dagsins.
Á einum stað, í langri grein, spyr Vilhjálmur:
„Hver segir að það sé réttlæti að íslensk heimili niðurgreiði útlán til fyrirtækja með neikvæðum raunvöxtum?“
Og svo spyr hann hver sé hagurinn af lágum vöxtum:
„Nú er hrósað happi og hamingju yfir því að Ísland sé lágvaxtaland. Hver er hamingjan af slíku? Að heimili séu að niðurgreiða lánsfé fyrirtækja?“