Alþingi
„Í dag vil ég
ræða um aukin umsvif í rekstri hins opinbera, umsvif sem eru að meginstefnu
fjármögnuð með peningum sem fengnir eru frá einstaklingum og fyrirtækjum í
formi skatta. Slíkum fjármunum þarf að ráðstafa vel,“ sagði Sigþrúður Ármann
varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi. Hún situr þar nú sem
varaþingmaður.
Þarna beinir hún orðum sínum eflaust helst að Bjarna Benedikttstni, fyrrverandi fjármálaráðherra, og núverandi fjármálaráðherra, Þórdísi K.R. Gylfadóttur. Formanni og varaformanni Sjálfstæðisflokksins.
Sigþrúður var gagnrýnin:
„Í dag starfa um 46.000 manns hjá hinu opinbera. Það þýðir að fjórði hver einstaklingur á íslenskum vinnumarkaði starfar hjá hinu opinbera. Ég geri ekki lítið úr því mikilvæga starfi sem víða er unnið hjá hinu opinbera, alls ekki. Starfsfólki ríkisins hefur fjölgað hraðar en landsmönnum og ef við horfum á Stjórnarráðið eitt og sér hefur starfsmönnum þess fjölgað á síðustu fjórum árum um rúmlega 30% og það sem e.t.v. verra er, störf hjá hinu opinbera eru ekki að verða skilvirkari og reyndar hefur skilvirkni hins opinbera ekki verið minni í átta ár samkvæmt úttekt EMD-viðskiptaháskólans í Sviss, þar sem Ísland kemur verst út allra Norðurlanda. Þá hefur samkeppni íslenskra fyrirtækja við hið opinbera um starfsfólk harðnað. Á síðustu fimm árum hafa laun hjá sveitarfélögum hækkað um 40% og um tæplega 30% hjá ríkinu. Þegar við bætist styttri vinnutími, öflugri lífeyrisvernd og betra skjól fyrir uppsögnum en almennt þekkist á almennum vinnumarkaði verður erfitt fyrir fyrirtæki að keppa við slíkt,“ sagði Sigþrúður.
„Rétt eins og fjölskyldur og atvinnulíf þessa lands þurfa stöðugt að hagræða og sýna útsjónarsemi verðum við að sjá hið sama í rekstri hins opinbera. Við þurfum að endurhugsa hlutverk hins opinbera, skoða hvernig og hvaða verkefnum er sinnt, hvar megi hagræða og hvaða verkefnum megi útvista. Með því að hagræða í ríkisrekstri getum við lækkað skatta og gjöld og aukið ráðstöfunartekjur fólks og fyrirtækja sem leiðir til betri lífskjara fyrir okkur öll.“