Davíð Oddsson setur út á Rannveigu Sigurðardóttur varaseðlabankastjóra. Honum þykir hún hafa gengið of langt þegar hún lýsti skoðunum sínum. Kíkjum á leiðara Davíðs:
„Við kynningu á vaxtahækkun á miðvikudag lét Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri vera að vanda um við þing og ríkisstjórn vegna þensluáhrifa ríkisútgjalda, sennilega til þess að trufla ekki gerð fjármálaáætlunar, sem á að koma í þingið fyrir páska.
Það er ókyrrð í landinu. Verðbólga hjaðnar hægt, þenslan lætur fátt á sig fá, vextir hækka og friður á vinnumarkaði ótryggur. Þetta er rætt upphátt í öllum kaffistofum landsins og í hálfum hljóðum við eldhúsborðin.
Aftur á móti fór Rannveig S. Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri út af sporinu þegar hún tók að greina frá persónulegum skoðunum sínum, að grípa ætti til „einhverra aðgerða á tekjuhliðinni“ og meinti skatthækkanir. Þær eru ekki í verkahring Seðlabankans og fráleitt að varabankastjórinn notfæri sér aðstöðuna til þess hafa áhrif á löggjafann.
Af heimasmíðuðum ástæðum verðbólgu er stórfenglegur vöxtur ríkisútgjalda sú helsta, um það er varla deilt. Auknar skatttekjur ríkisins myndu engu breyta um það, þótt fjárlagahallinn lækkaði ögn. Þær væru gagnslausar að því leyti, en myndu kollsteypa fjárhagsáætlunum fólks og fyrirtækja.“
Við sem munum nokkur ár til baka munum að eitt sinn var bankastjóri í Seðlabankanum sem gekk mun lengra. Lagði til að mynda til að utanþingsstjórn tæki við stjórnartaumunum.