Það var ekki dótturfélagið í Namibíu sem tók á móti „hákörlunum“ á Íslandi.
Marinó G. Njálsson skrifar:
„Forstjóri og stjórn Samherja hafa komist að samkomulagi um að forstjóri félagsins, Þorsteinn Már Baldvinsson, stígi tímabundið til hliðar þar til helstu niðurstöður yfirstandandi innri rannsóknar á ætluðum brotum dótturfélags í Namibíu liggja fyrir.“
Þarna er margt að skoða. Í fyrsta lagi er gott, að Samherji hafi tekið skref aftur á bak og hætt árásum á Jóhannes Stefánsson, a.m.k. í bili. Menn eru að sýna visst merki iðrunar með því að Þorsteinn Már stigi til hliðar, en lengra nær það ekki.
Hafi þessi tilkynning verið samin í flýti, þá mæli ég með því við forráðamenn Samherja að fyrirtækið sendi út viðbót við hana, þar sem tekið er fram að rannsaka eigi ALLA anga þessa máls, ekki bara þátt dótturfélagsins í Namibíu. Menn þurfa að átta sig á því, að almenningur hefur aðgang að yfir 30.000 skjölum og Al-Jazeera á eftir að birta sinn þátt.
Það var ekki dótturfélagið í Namibíu sem tók á móti „hákörlunum“ á Íslandi. Það var móðurfélagið og forstjórinn. Það var heldur ekki dótturfélagið sem átti fund með sjávarútvegsráðherra Namibíu á sveitasetri ráðherrans. Það var forstjórinn. Það var síðan ekki dótturfélagið í Namibíu sem gerði út verksmiðjuskipin sem sáu um veiðarnar og notaði félag úr skattaparadís til að greiða launin. Það var ákvörðun móðurfélagsins og í höndum dótturfélags á Kýpur. Enn síður var það ákvörðun dótturfélagsins í Namibíu að nota félag á Máritíus til að greiða ekki skatti í Namibíu. Það var ákvörðun móðurfélagsins. Þá var það ekki ákvörðun dótturfélagsins í Namibíu að bera mútur á „hákarlana“. Það var ákvörðun sem tekin var af móðurfélaginu.
Ég vona innilega, að Samherji ætli ekki að misbjóða íslenskum almenningi með því að halda fram, að hundruð milljóna og jafnvel milljarða útgjöld séu ekki rædd af æðstu stjórnendum fyrirtækisins og stjórn. Ég vinn hjá alþjóðlegu stórfyrirtæki, þar sem starfsmenn eru umtalsvert fleiri en hjá Samherja og tekjur um 100 falt hærri. Þar þurfa öll útgjöld umfram 250 USD að fá samþykki hjá næst efsta lagi í fyrirtækinu. Launahækkanir, sem ekki eru samningsbundnar, þurfa samþykki forstjóra. Allir samningar við viðskiptavini fara í gegn um ítarlegt ferli, þar sem lögfræðingar fyrirtækisins yfirfara allt og æðstu stjórnendur skipta sér að málum. Eigum við að trúa því, að Þorsteinn Már Baldvinsson hafi verið einhver puntdúkka á forstjóraskrifstofu fyrirtækisins?
Ég held að EKKERT hafi gerst hjá dótturfélaginu í Namibíu sem forstjórinn á Akureyri og hans nánustu samverkamenn vissu ekki af. Allra síst að teknir hafi verið út tugir þúsunda USD í reiðufé af reikningi félagsins til að greiða í mútur. Höfum það alveg á hreinu. Eigi að koma allri sök í þessu máli á undirtyllur, þá er það einfaldlega lítilmannlegt.