- Advertisement -

„Var það réttlæti…“

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, gerði réttlæti að umstalsefni í sinni ræðu á Alþingi í gærkvöld. Hún sagði þá:

„Var það réttlætið sem réð för þegar ákveðið var að lækka veiðigjöld á útgerðina um 8,5 milljarða á ársgrundvelli? Var það réttlæti sem réð för þegar ákveðið var að lækka gjöld á áfengi og tóbak en hækka komugjöld á heilsugæslu? Var það réttlæti sem réð för þegar ákveðið var að hækka álögur á námsmenn í háskólum sem runnu beint til að niðurgreiða niðurskurð á háskólana? Er það réttlæti sem ræður för þegar ríkisstjórnin ákveður að framlengja ekki auðlegðarskatt sem lagður var á stóreignafólk þessa lands þegar reisa þurfti samfélagið við eftir efnahagshrun? Er það réttlæti sem ræður för þegar við tökum á móti hælisleitendum og innflytjendum, sendum suma til baka og stíum þar jafnvel í sundur fjölskyldum? Eru þetta réttlátar aðgerðir sem skila réttlátara samfélagi? Hefur ríkisstjórnin staðist réttlætisprófið? Mér sýnast svörin nokkuð augljós.“

 Og síðar í ræðu sinni sagði Katrín:

„Réttlátt samfélag er fyrir alla. Ef við viljum slíkt samfélag hlýtur það að vera kappsmál okkar allra að tryggja jöfnuð sem er ekki aðeins réttlætismál heldur líka einkenni skynsamlegs samfélags. Þetta er ríkisstjórn hverrar margir forustumenn hafa talað sérstaklega fyrir rökhyggju og skynsemi. Þeir ættu því að leggja eyrun við því að um allan heim hafa menn áhyggjur af vaxandi ójöfnuði, hann er nú talinn helsta ógnunin við frið og stöðugleika í heiminum. Rannsóknir sýna líka að ójöfnuður er ógn við samfélagslega samheldni og þau lönd þar sem mestur jöfnuður hefur ríkt í sögulegu samhengi eru þau sem hefur vegnað best á öðrum sviðum líka, efnahagslega og félagslega, þ.e. Norðurlöndin.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Til að tryggja þennan jöfnuð er hægt að beita ýmsum úrræðum. Þar er skattlagning á fjármagn mjög mikilvæg. Til þess að hún beri árangur þarf að tryggja aukið gagnsæi. Þar verður æ ríkari krafa um aukna alþjóðlega samvinnu til að tryggja að stjórnvöld hafi nauðsynlegt aðgengi að réttum upplýsingum þannig að unnt sé að skattleggja fjármagnið af réttlæti. Þess vegna vakna hjá mér spurningar þegar kemur fram í fréttum að íslenskum stjórnvöldum standi til boða að kaupa í samstarfi við önnur ríki upplýsingar um fjármagn sem Íslendingar komu fyrir í skattaskjólum fyrir hrun. Hví hafa íslensk stjórnvöld ekki gripið það tækifæri eins og gert hefur til að mynda verið í Þýskalandi og fleiri ríkjum? Er ekki þörf á slíkum upplýsingum ef við ætlum að tryggja réttláta skattbyrði en ekki láta auðmönnunum sjálfum það eftir að ákvarða sína eigin skattprósentu?“

 Fólk þreytt á hefðbundnum stjórnmálum

„Í allri stjórnmálaumræðu er mikilvægt að réttlætissjónarmið séu höfð að leiðarljósi, að kjörnir fulltrúar geti tekið sem bestar og réttlátastar ákvarðanir í þágu allra landsmanna. Margir telja að nýir tímar kalli á ný pólitísk hugtök, orðin hægri og vinstri séu orðin merkingarlaus í hugum almennings sem sé orðinn þreyttur á svokölluðum hefðbundnum stjórnmálum. Miðað við áskoranir nýrrar aldar held ég að markmið um réttlæti, jöfnuð og sjálfbærni hafi aldrei verið mikilvægari, einmitt til að tryggja samfélag fyrir alla. Þetta er hlutverk og skylda okkar vinstri manna í samtímanum því að í mínum huga er réttlæti ekki pólitísk klisja sem dó út á síðustu öld.“

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: