Það er sem forystufólk Sjálfstæðisflokksins hafi annað hvort gleymt eða ekki hirt um að bjóða Davíð Oddssyni í níutíu ára afmæli flokksins. Hið minnsta var honum ekki boðið sem heiðursgesti. Davíð er ekki skemmt yfir þessu og kemur með enn eina ádrepuna á núverandi forystu.
„Það gerðist ekki mikið á 90 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins og reyndar var engu líkara en að afmælið brysti óvænt á og það þrátt fyrir óvænta heiðursgesti, formann VG, formann Framsóknarflokksins, þá sömu sem vildu draga fyrrverandi formann flokksins, Geir H. Haarde, fyrir Landsdóm í þeim yfirlýsta tilgangi að koma honum á bak við lás og slá.“
Á einum tíma sagði Bjarni Benediktsson, við þann sem þetta ritar, að myndi aldrei geta fyrirgefið því fólk sem samþykkti ákærurnar á Geir H. Haarde. Og heldur ekki því fólki sem samþykkti lagabreytingar um Seðlabankann með þeim afleiðingum að Davíð missti starfið. Nú er öldin önnur og það er meira en vík milli Davíðs og Bjarna.
Lesum meira af skrifum Davíðs um sinn gamla flokk og afmælið:
„Fyrsti heiðursgestur flokksins var nýbúinn að lýsa því yfir að hún vildi að sett yrðu lög sem heimiluðu konum að ákveða að farga ófæddu barni sínu allt þar til komið væri að fæðingu þess eftir 9 mánaða meðgöngu.
Það er enginn vafi á því að væru almennir sjálfstæðismenn spurðir um þessa draumsýn formanns VG þætti yfirgnæfandi meirihluta þeirra þetta fjarstæðukennd afstaða ef ekki beinlínis óhugguleg.
Þá mun varaformaður Samfylkingar einnig hafa verið í hópi útvalinna heiðursgesta. Samfylkingarforystan kallar barn sem kona gengur með „frumuklasa“ allt að fæðingu eins og fram hefur komið.“
Þessar staðreyndir meiða greinilega formann fyrrverandi. Hann heldur áfram:
„Varla er hægt að kenna vali á heiðursgestum í þessu afmæli um það hversu illa samkundan var sótt, þótt vorsólin blíða léti sitt ekki eftir liggja og einhverjir hoppukastalar til taks.
En af hverju þurfti að læðast með veggjum með þetta afmæli? Það er vissulega megn óánægja í flokknum og þá ekki síst meðal kjósenda hans og hugsanlegra kjósenda með óskiljanlega framgöngu flokksins í orkupakkamálinu, þar sem hiklaust er byggt á blekkingum, sem raunar eru fjarri því að vera lofsverðar.“