Stjórnmál

Vantar vilja til að stöðva skattsvikin

By Miðjan

September 26, 2023

„Við eigum að þora að tala um skatta. Nú um stundir eru það breiðu bökin, stórútgerðir, fjármálastofnanir og þeir sem fá launin sín greidd sem fjármagnstekjur sem þurfa að greiða sinn sanngjarna skerf til samfélagsins. Ríkisstjórnin vill alls ekki snerta þessa hópa en hikar ekki við að fara ofan í vasa almennings með gjaldahækkunum líkt og frumvarpið sem við ræðum hér ber vitni um,“ sagði Oddný Harðardóttir á Alþingi.

„Við þurfum líka að þora að tala um skattsvik og notkun skattaskjóla. Vísindamenn sem rannsakað hafa notkun skattaskjóla segja að ríkissjóður Íslands verði af 22% af fyrirtækjaskatti vegna skattundanskota á hverju ári. Hlutfallið hér á landi er það næsthæsta innan OECD-ríkjanna. Ríkissjóður verður af í það minnsta 15 milljörðum kr. á ári hverju vegna þess að fyrirtæki fela fé og eignir í skattaskjólum. Og það gera einstaklingar auðvitað fyrir hönd félaga sinna. Fyrir þann pening mætti t.d. bæta kjör öryrkja og eldra fólks eða hækka greiðslur til ungra fjölskyldna í landinu. Þeir sem nota skattaskjól gera það til að komast hjá því að greiða skatta af tekjum og eignum og vilja láta aðra bera sinn hlut í ríkisrekstrinum, láta aðra halda hér uppi heilbrigðisþjónustu, menntakerfi og öðrum innviðum samfélagsins. Þau vilja ekki borga til samfélagsins réttlátan hlut líkt og aðrir gera en þiggja þjónustuna.

Stjórnvöld þurfa að ganga ákveðin til verks og koma í veg fyrir að skattsvik og notkun skattaskjóla haldi áfram að grafa undan samfélaginu, bæði fjárhagslega og siðferðislega. Hæstvirt ríkisstjórn sem nú situr virðist ekki hafa mikinn áhuga á þessu. Það þarf að breyta skattareglunum þannig að sem minnst verði um notkun skattaskjóla og styrkja skattyfirvöld til að fylgjast með framkvæmd reglnanna. Eitt er víst, forseti, að án ábyrgðar geta samfélög ekki virkað. Ábyrgðin á rekstri þjóðfélagsins er okkar allra,“ sagði Oddný.