- Advertisement -

Vanstilling SFS

Sigurjón Þórðarson alþingismaður skrifar:

Framkvæmdastjóri SFS leggst jafnvel svo lágt að; halla réttu máli, fara með ýkjur og atvinnuróg gagnvart veiðum smábáta sem ég ætla ekki að fjalla um í þessu greinarkorni, hvað sem síðar verður.

Viðbrögð talsmanna stórútgerðarinnar við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um aukið svigrúm til handfæraveiða einkennist af jafnvægisleysi.  Framkvæmdastjóri SFS leggst jafnvel svo lágt að; halla réttu máli, fara með ýkjur og atvinnuróg gagnvart veiðum smábáta sem ég ætla ekki að fjalla um í þessu greinarkorni, hvað sem síðar verður. Mér finnst þetta mjög miður þar sem hagsmunir stórútgerða og smábáta fara saman á mörgum sviðum og því undarlegt að SFS sé að beina kröftum sínum að því að drepa niður alla nýliðun, frelsi og vaxtarbrodda í greininni. 

Fyrirfram hefði maður talið vænlegra fyrir þá sem fara tímabundið með nýtingarrétt á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar að sýna meiri stillingu og sanngirni í umræðunni.

Vissulega er það ekkert nýtt að menn hafi farið fram úr sér m.a. forstjóri Síldarvinnslunnar, Gunnþór Björn Ingvason sem fór mikinn á fundi fyrir nokkrum árum þegar fram fór umræða um breytingar á kvótakerfinu. Á einum fundinum tók hann upp ljósmynd af börnum sínum og lýsti yfir mikilli örvæntingu um örlög barnanna.

Boðaði forstjórinn  uppsögn sjómanna, fækkun skipa og lokun á fiskvinnslum.  

Mögulega metur forstjórinn það svo að þetta upphlaup hafi skilað tilætluðum árangri þar sem áramótaávarp hans einkennist af vanstillingu og ýkjum vegna strandveiða. Boðaði forstjórinn  uppsögn sjómanna, fækkun skipa og lokun á fiskvinnslum.  

Það vita það allir Seyðfirðingar og þá væntanlega Gunnþór betur en aðrir að lokun fiskvinnslunnar Gullbergs á Seyðisfirði hafði ekkert með strandveiðar að gera heldur vantaði meira hráefni í risavinnslu Samherja. Á hinn bóginn tryggja strandveiðar áframhaldandi líf í höfnum Austurlands, burt séð frá hrókeringum höfðingja stórútgerðarinnar.

Búsorgir stórútgerðarinnar vegna strandveiða eru stórundarlegar, þar sem miklu nær væri að hafa áhyggjur af fiskveiðiráðgjöfinni.  Á örfáum árum þá hafa veiðiheimildir í þorski dregist saman um 60 þús. tonn og viðmiðunarstofninn er metinn hafa dregist saman um mörg hundruð þúsund tonn, þrátt fyrir að ráðgjöfinni hafi verið fylgt út í ystu æsar!

Sama má segja um loðnuveiðarnar að þær eru nú svipur hjá sjón miðað við hvað þær voru áður. Gott ef loðnuveiði síðustu tveggja áratuga sé ekki innan við þriðjungur af því sem veiðin var áratugina tvo þar á undan. 

Vissulega vona ég Gunnþóri og börnunum hans hafi vegnað vel en að sama skapi þá væri óskandi að hákarlar stórútgerðarinnar héldu örlítið aftur af kappi og gróðafíkn sinni með það fyrir augum að gefa smáseyðunum í greininni líf, en þeir litlu eiga víst börn einnig.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: