Vanda gefur grænt ljós á Aron Einar í landsliðið: „Engar reglur sem banna þjálfara að velja ákveðna leikmenn“
Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, segir engar reglur banna landsliðsþjálfa að velja ákveðna leikmenn í liðið. Því sé Arnari Viðarssyni, þjálfara karlalandsliðsins í fótbolta, frjálst að velja Aron Einar Gunnarsson, fyrrum fyrirliða liðsins, í næsta landsliðsverkefni.
„Eins og staðan er núna þá eru engar reglur sem banna landsliðsþjálfara að velja ákveðna leikmenn,“ segir Vanda, aðspurð hvort Arnar gæti valið Aron í samtali við Fréttablaðið.
Aron og Eggert Gunnþór Jónsson, leikmaður FH, voru síðasta haust kærðir fyrir nauðgun sem átti að hafa átt sér stað á hótelherbergi í Kaupmannahöfn árið 2010. Þá voru leikmennirnir í verkefni á vegum landsliðsins og hið meinta fórnarlamb er íslensk kona.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakaði málið og skilaði því inn á borð héraðssaksóknara sem á endanum felldi málið niður, þar sem það þótti ekki líklegt til sakfellingar.
Vanda hefur ekkert rætt við Aron Einar frá því að málið kom upp en leikmaðurinn hefur ekki verið valinn í íslenska landsliðshópinn undanfarið. Unnið er að reglum innan ÍSÍ hvernig taka skal á svona málum þegar þau koma upp, meðal annars sem snúi að vali á leikmönnum í landsliðið.
„Vonandi klárast þessi vinna sem allra fyrst. Þar sem þetta hefur dregist hefur KSÍ farið af stað í að útbúa bráðabirgðareglur sem eiga að verða tilbúnar á næstu vikum,“ segir Vanda.