Andrés Ingi Jónsson þingmaður skrifar:
Starfsstöðvar heilbrigðisstofnana á Vestur- og Norðurlandi voru margar fjarri því að vera í stakk búnar til að takast á við þær miklu rafmagnstruflanir í kjölfar ofsaveðursins sem gekk yfir landið 10. og 11. desember. Þetta kemur skýrt fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn minni um varaafl heilbrigðisstofnana, sem var að birtast rétt í þessu.
Jafnframt kemur fram hvaða vinna er í gangi til að bæta úr þessari óásættanlegu stöðu, en ráðherra sendi öllum forstjórum heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa á landinu spurningar um viðbrögð þeirra við náttúruvá í kjölfar fyrirspurnarinnar. Meðal þess sem þar er kallað eftir er geta heilbrigðisstofnana til að mæta atburðum eins og þeim sem urðu í desember og ef talið er að þær séu vanbúnar, hvað þyrfti að gera til að tryggja örugga þjónustu við slíkar aðstæður. Þau svör liggja nú fyrir hjá ráðuneytinu og verður áhugavert að sjá hvernig unnið verður úr þeim.