- Advertisement -

Valið milli þess að sjá börnin sín eða eigi ekki fyrir mat og húsaleigu

Gunnar Smári Egilsson.

Gunnar Smári skrifar: „Mér finnst ég ótrúlega heppin að hafa fundið kraft til að flytja hingað á Seyðisfjörð,“ Ásta Bjarndís Þorsteinsdóttir, 27 ára einstæð móðir tveggja drengja. „Hér get ég unnið láglaunastarf í Kjörbúðinni en samt borgað húsaleigu og mat og séð börnin mín. Ég get meira að segja lagt smá fyrir. Konur fyrir sunnan sem eru í sömu stöðu og ég, einstæðar mæður, þurfa að vera tveimur og þremur vinnum til að eiga fyrir húsaleigu og mat og þær sjá aldrei börnin sín. Þær þurfa að velja á milli þess að vinna allan sólarhringinn og sjá aldrei börnin sín eða að eiga ekki fyrir mat og húsaleigu.“

Það var engin leið

Ásta Bjarndís lenti á vegg þegar hún skyldi við barnsföður sinn þegar Guðni Már, yngri drengurinn, var níu mánaða. Það var engin leið að hún gæti borgað 180 þúsund krónur á mánuði í leigu fyrir íbúðina sem fjölskyldan hafði leigt. Ásta var að læra félagsliðann í Borgarholtsskóla og tekjur hennar voru langt frá því að standa undir svo dýrri leigu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Flutti heim til mömmu

„Guðni Már var með svo mikið ofnæmi að engin dagmamma treysti sér til að taka hann svo ég var bundin með hann heima og reyndi að halda áfram fjarnámi,“ segir Ásta. „Ég gat ekki borgað húsaleiguna og ekki fundið íbúð sem ég hafði efni á svo ég flutti með drengina heim til mömmu, í litla íbúð. Þetta var erfiður tími og andlega heilsan var komin í tjón. Ég hafði skilið og var þá húsnæðislaus, í raun heimilislaus því ég bjó heima hjá mömmu, og það var eins og það væri ekkert pláss fyrir mig í samfélaginu. Ég bað um hjálp en kom alls staðar að lokuðum dyrum. Ég gat ekki fundið íbúð sem ég hafði efni á, gat ekki fundið vinnu vegna þess að ég kom dregnum ekki í dagvist og ég gat ekki haldið áfram námi vegna þess að aðstæður mínar brutu mig niður.“

Ásta segist hafa fengið úthlutað námsmannaíbúð á þessum tíma en íbúðin vars vo lítil að fjölskyldan komst ekki fyrir í henni. „Svefnherbergið var of lítið fyrir Viktor Hafberg og Guðna Má svo þeir hefðu þurft að sofa í stofunni, sem jafnframt var eldhús. Ég treysti mér bara ekki til að búa þeim heimili við þær aðstæður og afþakkaði íbúðina,“ segir Ásta.

Frá Seyðisfirði: Ásta talar mikið um hvað það er gott að búa á Seyðisfirði og hvað bæjarbúar hafi tekið sér og drengjunum vel. „Okkur var boðið í jólamat þegar við komum hingað vinalaus og án nokkurra tengsla. Mér finnst ég tengjast samfélaginu hér miklu nánar en fyrir sunnan þar sem allir eru að flýta sér og enginn hefur tíma.“

Hafði aldrei komið til Seyðisfjarðar

Í örvæntingu sinni setti Ásta inn status í Facebook-hópinn Góða systir og lýsti aðstæðum sínum. „Það hrönnuðust inn ábendingar og stuðningur frá allskonar konum,“ segir Ásta, „og það gaf mér aukakraft svo ég hafði samband við öll sveitarfélög á landinu, byrjaði á þeim sem voru næst Hafnarfirði og fór svo hringinn. Þegar ég var kominn austur á land kom loks jákvætt svar. Ég gat fengið íbúð á Seyðisfirði. Ég sagði strax já, takk. Ég hafði aldrei komið til Seyðisfjarðar og þekkti engan frá Seyðisfirði. Pabbi flutti búslóðina mína austur og svo flutti ég með drengina. Þetta er besta ákvörðun sem ég hef tekið í lífinu. Mér finnst eins og ég hafi sloppið út úr helvíti.“

Launin eru auðvitað ekki há

Ásta segir að bæjarbúar hafi tekið henni og drengjunum vel. Guðni Már er í leikskóla og Viktor Hafberg í skóla. Ásta byrjaði að vinna á leikskólanum en þá voru báðir drengirnir með henni allan daginn og henni fannst það hvorki gott fyrir hana, drengina né hin börnin á leikskólanum. Núna vinnur hún í Kjörbúðinni. „Það er frábært,“ segir Ásta. „Launin eru auðvitað ekki há en hér er gott að vera. Hingað koma allir og ég tengist bæjarbúum vel.“

„Það er hægt að vera í alvarlegum vanda fyrir sunnan og hrópa á hjálp en það er eins og engin heyri í þér. Fólk sér þig ekki. Og vill ekki hlusta.“ Ljósmynd: Gabriel Matula.

Hrópa á hjálp en engin heyrir

Ásta talar mikið um hvað það er gott að búa á Seyðisfirði og hvað bæjarbúar hafi tekið sér og drengjunum vel. „Okkur var boðið í jólamat þegar við komum hingað vinalaus og án nokkurra tengsla. Mér finnst ég tengjast samfélaginu hér miklu nánar en fyrir sunnan þar sem allir eru að flýta sér og enginn hefur tíma. Það er hægt að vera í alvarlegum vanda fyrir sunnan og hrópa á hjálp en það er eins og engin heyri í þér. Fólk sér þig ekki. Og vill ekki hlusta.“

Yrði að finna út úr þessu sjálf

Ásta segir leigumarkaðinn vera mikla skömm. Samt gera stjórnvöld ekkert. Ráðherrar tala voða mikið en gera ekki neitt. Þegar félagsmálayfirvöld í Hafnarfirði skertur bætur hennar og barnanna um 20 þúsund krónum í 120 þúsund fylltist Ásta örvæntingu og skrifaði Eygló Harðardóttur félagsmálaráðherra bréf. Hún fékk svar frá aðstoðarkonu Eyglóar um að erindið hefði verið sent til félagsmálayfirvalda í Hafnarfirði en þar breyttist ekkert. „Þegar ég leitaði til kerfisins fékk ég bara eitthvert kjaftæði, það var eins og að ganga á vegg,“ segir Ásta. „Maður skynjar að fólkið sem maður talar við átti sig ekki á hvað fólk er að ganga í gegnum. Ég horfði á syni mína og bað til guðs að þeir færu ekki að stækka upp um skónúmer því ég hefði ekki getað keypt á þá nýja skó. Og svo sat ég buguð að biðja um hjálp og fékk þau svör að ég yrði að finna út úr þessu sjálf.“

Fleiri félagslegar íbúðir á Seyðisfirði

Heppni Ástu Bjarndísar liggur í því að á níunda og tíunda áratug síðustu aldar byggðu sveitarfélögin upp félagslegar leiguíbúðir víða um land. Því til viðbótar keyptu sveitarfélögin á landsbyggðunum íbúðir út úr verkamannabústaðakerfinu þegar það var lagt niður. Mörg sveitarfélög hafa selt þessar íbúðir og sums staðar eru engar félagslegar leiguíbúðir eftir. En á Seyðisfirði eru sex almennar félagslegar leiguíbúðir og þótt það sé ekki há tala er hlutfall félagslegs leiguhúsnæðis hærra þar en í Reykjavík og heimabæ Ástu, Hafnarfirði.

„Húsnæðiskreppan eftir Hrun hefur dregið fram hversu afdrifaríkar breytingar voru gerðar á húsnæðisstefnunni undir lok síðustu aldar.“

Húsnæðiskreppan eftir Hrun

Um tíma, eftir aldamótin, stóðu margar félagslegar íbúðir auðar, einkum á Vestfjörðum. En eftir Hrun er orðinn mikill skortur á félagslegu húsnæði um allt land, sums staðar ekki eins knýjandi og á höfuðborgarsvæðinu en víða mjög alvarlegur. Húsnæðiskreppan eftir Hrun hefur dregið fram hversu afdrifaríkar breytingar voru gerðar á húsnæðisstefnunni undir lok síðustu aldar. Á sama tíma og verkamannabústaðir voru lagðir niður var horfið frá uppbyggingu félagslegs leiguhúsnæðis en húsaleigubætur auknar í þeirri trú að hinn frjálsi markaður myndi skaffa húsnæðið en hið opinbera ætti aðeins að skaffa fjárhagslega stuðninginn. Þessi stefnubreyting gerði svo stóru leigufyrirtækin að ráðandi afli á leigumarkaði eftir Hrun, sem leiddi til þess að fjölmennir hópar fólks geta í raun ekki verið á leigumarkaði. Fólk eins og Ásta Bjarndís og fjölmargir í líkri stöðu. Hennar lukka var að ná inn í kerfi, sem í raun er ekki lengur hluti af opinberri húsnæðisstefnu.

Já, ég yrði að gera það

En myndi Ásta vilja flytja suður aftur ef henni byðist 112 fermetra íbúð á 73 þúsund krónur, eins og hún leigir á Seyðisfirði? „Já, ég yrði að gera það,“ svarar Ásta, „Guðni Már þarf á læknisþjónustu að halda sem er ekki hérna fyrir austan. Við förum oft á ári suður í skoðun og reglulega í sjúkraþjálfun upp á Egilsstaði. Það er ekki einu sinni hægt að mæla í honum sjónina hérna fyrir austan svo við þurfum líka að fara suður til augnlæknis.“

Þá myndi ég vilja búa hér

En ef þið fengjuð viðunandi heilbrigðisþjónustu fyrir austan? „Nei, þá myndi ég vilja búa hér,“ sagði Ásta Bjarndís. „Ég var að hugsa þetta þegar ég var fyrir sunnan með Guðna Má hjá lækni um daginn. Ég gat ekki beðið eftir að komast aftur austur.“

Leigjendur rísa upp

Á næstu dögum munu fleiri leigjendur segja sögu sína undir yfirskriftinni Leigjendur rísa upp. Samtök leigjenda á Íslandi minna á aðalfund samtakanna í Borgartúni 1 29. september kl. 14:00 #leigjendurrísaupp!

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: