Óli Björn Kárason er sá í þingliði Sjálfstæðisflokksins sem tjáir sig mest um pólitík, jafnvel sá eini. Í vikulegri grein sinni í Mogganum fjallar um sjálfstæði þjóða, með augum flokksins síns. Flokksins sem fer sínar eigin leiðir og kemst upp með það, vegna ótrúlegrar fyrirferðar í íslenskum stjórnmálum.
Hér eru tvo merk sýnishorn úr grein Óla Björns.
„Á afmælisári fullveldisins er það við hæfi að utanríkisráðherra skuli hafa skipað starfshóp, undir forystu Björns Bjarnasonar, fyrrverandi ráðherra, til að vinna skýrslu um aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Vegurinn milli þess að varðveita fullveldið og taka þátt í samstarfi Evrópuþjóða er vandrataður. Þess vegna skiptir miklu að varpað sé skýru ljósi á kosti og galla aðildar að EES en ekki síður sé mótuð stefna til lengri tíma um hvernig við Íslendingar viljum tryggja náið og gott samstarf við aðrar þjóðir. Efnahagsleg velsæld næstu 100 ár fullveldis ræðst af því hvernig okkur tekst til.“
Fyrir okkur sem utan standa er ekki hægt annað að en lesa út úr þessu en að verið sé að undirbúa slit á EES-samningnum. Sé einhver í vafa þá ber að lesa seinni tilvitnunina í grein Óla Björns:
„Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur oftar en einu sinni vakið athygli á nauðsyn þess að Alþingi taki til skoðunar stöðuna á grundvelli EES-samningsins. Íslendingar standi frammi fyrir því „í hverju málinu á eftir öðru að Evrópusambandið krefst þess þegar við tökum upp Evrópugerðir, tilskipanir eða reglugerðir, að við Íslendingar fellum okkur við að sæta boðvaldi, úrslitavaldi, sektarákvörðunum eða með öðrum hætti skipunum frá alþjóðastofnunum sem Evrópusambandið hefur komið sér upp en við eigum enga aðild að“. Með þessu sé grafið undan grunnstoðum EES-samningsins.“
Aðrir stjórnmálaflokkar verða að taka þátt í því sem er í undirbúningi. Fær Sjálfstæðisflokkurinn að fara þessa ferð án umræðu, án þess að þeir sem eru annarra skoðunar lyfti litla fingri?