- Advertisement -

Valdspilltur leiðtogi

Ég var að byrja að skrifa um Ingu Sæland og brottreknu þingmennina. Þá rekur á fjörur mínar skrif um þetta sama. Þar hélt minn gamli ritstjóri á penna. Þar sem Össur er betri penni en ég tel ég rétt að grípa pistil Össurar og birta hann hér.

-sme

„Inga Sæland talar sig móða um skort á lýðræði – nú síðast þegar starfsstjórn var í myndun – en á sama tíma tekur hún sér alræðisvald innan Flokks fólksins, þverbrýtur reglur hans og lög og rekur þingmenn úr framboði af því þeir dansa ekki algerlega eftir hennar höfði.

Opinber brottrekstur Jakobs Frímanns (og Tomma í Búllunni) úr framboði er ekki aðeins ólýðræðislegur gjörningur hjá leiðtoga sem alltaf er með túlann fullan af lýðræðishjali heldur hreinasta valdníðsla af hennar hálfu. Það sést gjörla þegar rennt er yfir einföld og skýr lög Flokks fólksins á heimasíðu hans.

Í þeim er sagt svart á hvítu að það sé uppstillingarnefnd, skipuð af kjördæmaráði, sem gerir tillögu að framboðslista. Í kjölfarið fjalla kjördæmisráð og stjórn um tillöguna á formlegum fundum. Formaðurinn hefur ekki einu sinni frumkvæðisrétt að tilnefningum – hvað þá til að gefa út tilskipanir um að tilteknir flokksmenn megi ekki vera í efstu sætum listanna.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„…að hann hefur meira fylgi en hún í sínu kjördæmi?“

Gjörningurinn felur því ekki aðeins í sér fyrirlitningu á þeim lýðræðislegu vinnubrögðum sem hún krefst dag hvern úr ræðustól Alþingis, heldur líka óvanalega gróft brot á lögum flokksins.

Að svona gerist á Íslandi á þriðja áratug 21. aldarinnar er með ólíkindum. Kanski á Ítalíu fyrir hundrað árum – en ekki hér og nú. Fjölmiðlar, sem eru helsta aðhaldstæki gegn valdspilltum leiðtogum, hljóta að skýra hvernig þetta samræmist lögum flokksins og hvort verjanlegt sé að flokkur undir slíkri stjórn fái tugmilljónir frá skattborgurum ár hvert í rekstrarstyrki.

Jakob Frímann er ástsæll listamaður sem á vild alls staðar enda merkilegt eintak. Enginn hefur náð meiri árangri fyrir kjarabaráttu listamanna en hann. Á sínum tíma var hann hvalreki fyrir Flokk fólksins og náði óvæntum og næsta ótrúlegum árangri með afar óhefðbundinni kosningabaráttu. Í dag er mesta fylgi Flokks fólksins einmitt í hans kjördæmi.“

Gæti verið að það sé þyrnir í auga drottningarinnar að hann hefur meira fylgi en hún í sínu kjördæmi?“

Þannig skrifaði Össur og ég birti.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: