Lögreglan hefur verið svo fjársvelt um langan tíma að öryggi fólks er hætta búin.
Jón Magnússon skrifar:
Það gerist sem betur fer ekki oft, að ráðherra í ríkisstjórn Íslands gerist sekur um valdníðslu, en í gær féll úrskurður í héraðsdómi Reykjavíkur, sem segir að reglugerð sem heilbrigðisráðherra setti þ.23.mars. s.l. um frelsissviptingu fólks sem kemur til landsins og nauðungarvistun þess væri ólögmæt.
Þetta þýðir að frelsisssvipting fólks við komuna til landsins og nauðungarvistun er ólögmæt, fyrst reglugerðin fer umfram þær heimildir, sem eru í sóttvarnarlögum. Raunar kemur fleira til, em veldur því að um ólögmæta aðgerð og framkvæmd var að ræða frá fyrstu hendi.
Heilbrigðisráðherra ber alla ábyrgð á þessu klúðri, sem hefur leitt til þess að yfir 200 manns hafa verið frelsisviptir án þess að nokkur heimild sé til þess í lögum. Leiga á gríðarstóru hóteli þjónar engum tilgangi lengur. Þannig hefur milljörðum af peningum skattgreiðenda verið kastað á glæ. Þegar um er að ræða jafn alvarlegt brot í stjórnsýslunni, þá getur ráðherra ekki komið sér undan því að axla ábyrgð.
Framkvæmdin var einnig ámælisverð, þannig var fólki m.a. ekki kynnt réttarstaða sín og sóttvarnarlæknir, hafði ekki þann viðbúnað til að tryggja réttarstöðu fólks og réttláta málsmeðferð,sem og að taka stjórnvaldsákvarðanir um nauðungarvistun svo sem tilskilið er í lögunum. Það getur leitt til þess að fjöldi fólks geti sótt bótamál á hendur ríkinu.
Óneitanlega var fróðlegt að fylgjast með umræðum í netheimum í aðdraganda þess að úrskurður féll í héraðsdómi Reykjavíkur. Lögmenn aðila voru ítrekað útmálaðir með þeim hætti, að þeir stjórnuðust af gróðafíkn og verið væri að rífa niður heilbrigðiskerfið og skapa almannahættu með því að fólk leitaði réttar síns. Þá kom ítrekað fram, að allt þetta væri runnið undan rifjum lögmannastóðsins í Sjálfstæðisflokknum.
Af þeim lögmönnum, sem komu að þessum málum, þá er ég sá eini sem er flokksbundinn Sjálfstæðismaður. Þó umfangsmikill sé, þá fullnægi ég samt ekki þeirri skilgreiningu að vera stóð. Öll þessi umræða sýndi fyrst og fremst mikið skilningsleysi á störfum og skyldum lögmanna. Ég sóttist ekki eftir þessu verkefni, en það var leitað til mín af aðila, sem vildi halda sóttkví heima hjá sér og allt sem því fylgir, en undi því ekki að vera nauðungarvistuð á hóteli. Lögmaður sem hefur tök á að sinna slíkri beiðni gerist að mínu viti brotlegur við þær frumskyldur réttarríkisins sem lögmönnum er ætlað að virða í störfum sínum, með því að koma aðilum sem þess óska og eru frelsissviptir til aðstoðar, svo langt sem hæfi þeirra, geta og þekking nær til.
En svo langt gekk umræðan að m.a. tveir valinkunnir sómamenn orðuðu það með sínum hætti að tjarga og fiðra ætti alla þá sem leyfðu sér að leita réttar síns í þessum málum og lögmenn þeirra ættu að sæta enn verri útreið. Svona umræða dæmir fyrst og fremst þá, sem sækja mál sín með þessum hætti.
Ekki skyldu menn gleyma orðum Þorgeirs Ljósvetningagoða við kristintöku á Íslandi: „Ef vér slítum í sundur lögin slítum vér í sundur friðinn.“ En þau orð viðhafði hann þegar hann mælti fyrir mestu og bestu málamiðlun sem nokkru sinni hefur gengið eftir í landi þessu þegar kristni var lögtekin á Alþingi árið 1000.
Nú er hrópað á nýja lagasetningu, þar sem kostir borgaranna verði takmarkaðir enn meir en nú og stjórnvöldum heimiluð víðtækari frelsissvipting en skv. sóttvarnarlögunum. Það er mikið óráð. Heimildir stjórnvalda eru nú þegar mjög rúmar. Dæmið um valdníðslu heilbrigðisráðherra sýna að það er ekki gott að hrapa að lagasetningu. Víðtækar breytingar voru gerðar á sóttvarnarlögum eftir vandaða meðferð Alþingis, þar sem m.a. voru sett inn ákvæði sem stuðluðu að því að úrskurðurinn féll með þeim hætti sem hann gerði í héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Alþingi hefur mikinn sóma af þeim breytingum, sem urðu á frumvarpinu og setningu laganna í sátt allra þingflokka ef ég man rétt.
Allir eru sammála um það að gæta sóttvarna gegn Cóvíd og beita eðlilegum aðgerðum hins opinbera til að tryggja að smit verði í lágmarki og koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll. En það er ekki sama hvernig það er gert og allt þarf að vera í samræmi við lög og reglur. Af hálfu heilbrigðisráðherra var haldið fram að brögð væru að því að fólk væri að brjóta reglur um heimasóttkví. Hvað er þá til ráða í því efni? Er rétt að nauðungarvista alla sem koma til landsins vegna örfárra sem brjóta af sér? Slíkt er varhugavert.
Af hverju ekki að grípa til þess ráðs, sem er einfaldast og sennilega ódýrast? Að efla lögregluna þannig að hún geti sinnt störfum sínum betur. Í því sambandi verður að hafa í huga, að lögreglan hefur verið svo fjársvelt um langan tíma að öryggi fólks er hætta búin og erlendir ofstopamenn eru sakaðir um að hafa myrt tvo einstaklinga við heimili sín á Reykjaíkursvæðinu með stuttu millibili.
Er ekki rétt að fólk hugi sérstaklega að þeirri vá, sem er hvað alvarlegust í þjóðfélaginu og bregðist við með eðlilegum hætti og efli lögregluna til að gæta öryggis borgaranna í stað þess að breyta þjóðfélaginu í eitt risastórt fangelsi vegna meintra brota hinna fáu,sem fámennt lögreglulið ræður ekki við að sinna sem skyldi vegna þess, að stjórnmálamenn hafa ekki sinnt þeirri frumskyldu sinni að gæta þess að lögreglan sé jafnan svo búin, að hún geti tryggt öryggi borgaranna og innanlandsfrið á grundvelli laganna.