- Advertisement -

Valdarán í Lífeyrissjóði verzlunarmanna

Ég hef aldrei gert greinarmun á kynjum eða sett upp kynjagleraugu þegar kemur að fyrirmyndum eða skrifum um spillingu.

Ragnar Þór Ingólfsson skrifar:

Óhað kyni, litarhætti eða trúarbrögðum.

Fyrir allmörgum árum, meira en tíu, stóð ég á krossgötum í mínu lífi.

Ég hafði séð flesta af mínum nánustu baráttufélögum missa vinnuna fyrir skoðanir sínar og framgöngu. 

Ég var að skrifa um lífeyrissjóðakerfið, tengslin og spillinguna og hafði fengið töluverða athygli frá venjulegu fólki sem misbauð hvernig þetta var.

Það var ekki eina athyglin sem ég fékk með skrifum mínum. Það stigu fram valdamiklir einstaklingar í íslensku samfélagi og leigupennar þeirra sem kepptust við að gera lítið úr skoðunum mínum og persónu.

Mér varð fljótlega ljóst að ég var kominn að vendipunkti í mínu lífi, að skrif mín og skoðanir gætu haft alvarleg áhrif á afkomu mína, tækifæri á vinnumarkaði, til framtíðar.

Ég hafði séð flesta af mínum nánustu baráttufélögum missa vinnuna fyrir skoðanir sínar og framgöngu. 

Ætla ég að halda þessu áfram eða sigla lygnari sjó í meðvirkni og þöggun. Í veikri von um að þetta lagist bara að sjálfu sér eða einhver annar taki slaginn og ég get þá grillað „áhyggjulaus“ á kvöldin.

Þetta varð í raun aldrei ákvörðun því uppgjöf mín var sigur þeirra og í hjarta mínu kom aldrei til greina að gefast upp.

Áfallið sem breytti öllu í mínu lífi vakti mig af værum blundi gagnvart því hvernig öllu í kringum okkur er stjórnað. Stjórnað til að verja hagsmuni fárra og kostnað heildarinnar. En það var samt aldrei planið að komast á einhvern stað eða á pólitískan stall.

Þessi barátta snýst ekki um mig heldur framtíð afkomenda okkar og það samfélag og lífskjör sem við skiljum eftir handa þeim. Af því verðum við á endanum dæmd.

Það má segja að Herdís hafi verið útskúfuð fyrir skoðanir sínar og á margan hátt útilokuð og á endanum brottræk úr íslensku samfélagi.

Ég hafði lítið spáð í því áður en mínar helstu fyrirmyndir í baráttunni gegn spillingunni eru konur. Og þegar kemur að skrifum mínum  um alvarlegustu spillingarmálin og vanhæfni eru persónur og gerendur í 99% tilfellum karlar. Ekkert planað karlhatur en svona hefur þetta bara þróast.

Ein af þeim sem ég þakka hvað helst, þó af mörgum sé að þakka, er Herdís Dröfn Baldvinsdóttir sem skrifaði doktors ritgerð sína um tengslanet valda á íslandi með áherslu á fjármálakerfið, verkalýðshreyfinguna og lífeyrissjóðina.

Frænka hennar hafði lesið grein eftir mig, þetta var fyrir 11 til 12 árum síðan, og taldi tilefni til að senda mér ritgerð Herdísar og tengja okkur saman.

Rannsóknir Herdísar og saga hennar opnuðu augu mín fyrir alvöru og í fyrsta sinn varð ég fyrir einskonar vakningu. Vakningu í hvernig samfélagi við raunverulega búum í.

Það má segja að Herdís hafi verið útskúfuð fyrir skoðanir sínar og á margan hátt útilokuð og á endanum brottræk úr íslensku samfélagi. Var úthrópuð doktor í misskilningi svo eitthvað sé nefnt.

Það sem heillaði mig sérstaklega við Herdísi,  eða Dísu eins og mér finnst betra að kalla hana, var staðfesta hennar og óbilandi kjarkur og þor í að fara gegn ægivaldi kerfis sem svífst einskis við að verja sig.

Kjarkur Dísu og innsæi veittu mér þann styrk og þá trú sem ég þurfti til að standa með hugsjónum mínum og skoðunum og afsaka þær aldrei.

Hún veitti mér innblásturinn.

Innblástur og baráttuþrek sem mun endast mér ævina. 

Sagan hefur dæmt Dísu vel og afhjúpað það vald sem skrifaði um.

GH steig harkalega fram í krafti stöðu sinnar og vegur gróflega að heilindum, starfsheiðri og mannorði fjölda fólks og félagasamtaka.

Ég hef aldrei gert greinarmun á kynjum eða sett upp kynjagleraugu þegar kemur að fyrirmyndum eða skrifum um spillingu. Skrif mín snúast eingöngu um þau mál sem brenna á mér hverju sinni. Ég hef skrifað um vanhæfa og spillta stjórnendur hvar sem þá er að finna í íslensku samfélagi.

Ein af þeim er Guðrún Hafsteinsdóttir (GH). Hún er formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, sem er einhverskonar æðsti prestur sértrúarsöfnuðar hins heilaga lífeyrissjóðakerfis, og svo er hún varaformaður stjórnar lífeyrissjóðs verslunarmanna sem ég er sjóðfélagi í.

Efir að GH hafði ásakað mig sem persónu, vinnustaðinn VR og fólkið sem við skipuðum til trúnaðarstarfa í LIVE, um óheilindi, lögbrot og annarleg sjónarmið varð ég einfaldlega að svara því.

GH steig harkalega fram í krafti stöðu sinnar og vegur gróflega að heilindum, starfsheiðri og mannorði fjölda fólks og félagasamtaka.

Ég skal viðurkenna að ég gekk líka harkalega fram í svörum mínum og dró fyrirtæki fjölskyldu hennar inn í málið sem var rangt af mér að gera enda vel rekið fyrirtæki og vel rómaður vinnustaður sem framleiðir ómótstæðilegan ís.

Það sama má segja um VR sem er frábær vinnustaður, uppfullur af frábæru, hörkuduglegu og einstaklega hæfu og heiðarlegu fólki í öllum stöðum.

Ég átti ekki von á öðru en að mér yrði vasklega svarað fyrir gagnrýni mína sem var í grunninn á  málefnalega rökum reist þar sem fullyrðingar Guðrúnar Hafsteinsdóttur um þátttöku í hlutafjárútboð Icelandair standast ekki lög um fjárfestingaheimildir lífeyrissjóða og standast í raun ekki nokkra einustu skoðun, sérstaklega vegna stöðu hennar innan lífeyrissjóðakerfisins.

Upp hófst ótrúleg atburðarás þar sem GH neitaði að samþykkja nýja stjórn.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem okkur GH greinir á en undir hennar stjórn ákvað lífeyrissjóður verslunarmanna þann 24.maí 2019 að hækka vexti á einum lánaflokki breytilegra vaxta eftir að seðlabankinn hafði lækkað vexti.

Stjórn VR taldi að stjórn LIVE hafi brotið lög og unnið um leið gegn peningastefnu Seðlabankans.

Í kjölfarið var tekin ákvörðun um að skipta út stjórnarmönnum okkar (VR) í Live, sem við vorum í fullum rétti til að gera.

Er nokkuð annað hægt að gera þegar stjórnarmenn fara gegn landslögum?

Upp hófst ótrúleg atburðarás þar sem GH neitaði að samþykkja nýja stjórn. Og úr varð valdarán yfir sjóðnum. Hún fékk meira að segja FME með sér í lið um tíma. VR stefndi stjórn lífeyrissjóðsins og FME vegna málsins.

Það gerist svo að stjórn sjóðsins leitar sátta í málinu á föstudegi en fyrirtaka fyrir dómi átti að eiga sér stað mánudagsmorguninn eftir. Þetta kom ekki á óvart því málsvörn LIVE og FME var farsakennd svo ekki sé meira sagt.

Ég var mjög mótfallinn því að draga stefnuna til baka og vildi fá dóm á stjórn LIVE og FME vegna málsins. Ég gaf þó eftir á endanum, sem ég mun ávalt sjá eftir, og ný stjórn frá VR var skipuð og við féllum frá málinu.

Í framhaldinu þurfti Lífeyrissjóðurinn að endurgreiða sjóðfélögum sínum oftekna vexti.

Svo gerist það að Neytendastofa kemst að þeirri niðurstöðu þann 19. desember 2019 að Lífeyrissjóður verzlunarmanna og LSR hefðu brotið gegn ákvæðum laga, frá 1994 og 2013, um neytendalán með því að hækka vexti.

Í framhaldinu þurfti Lífeyrissjóðurinn að endurgreiða sjóðfélögum sínum oftekna vexti.

Stjórn sjóðsins undir forystu GH braut lög.

Það ótrúlega gerist að enn er verið að vísa í þetta mál sem einhverskonar skuggastjórnun eða mál sem gefur tilefni til að endurskoða reglur um skipan í stjórnir sjóðanna.

En þau brutu lög!!!!

Það er þekkt aðferðarfræði að afvegaleiða umræðuna frá kjarna málsins með því að kasta út alls kyns spilum úr spilastokkum almannatengla um krýsustjórnun til að þrýsta orðræðu um vanhæfni og spillingu, jafnvel lögbrot, í annan farveg og draga þannig athyglina frá kjarna málsins og upplýstri umræðu.

Þetta gera ekki bara hrunverjar og Samherjar heldur flestir þeir sem fara með völd í íslensku samfélagi og er viðurkennd aðferð í að blekkja almenning.

Nú er verið að spila út kynjaspili í máli þar sem Guðrún Hafsteinsdóttir er komin upp að vegg og ekki séð hvernig eftirlitsaðilar geta sniðgengið lengur vanhæfni hennar í að gegna stöðu sinni innan lífeyrissjóðakerfisins.

Ég mun á næstu dögum rifja upp nokkur mál sem snúa að Framtakssjóði Íslands.

Ég leyfi mér að vona að eftirlitsaðilar, ef þeir vilja öðlast vott af trausti og trúverðugleika, taki þetta mál til rækilegrar skoðunar.

Það mun hreinsa mig og fulltrúa VR í stjórn LIVE af þeim þungu ásökunum sem á okkur eru bornar af GH og félögum hennar innan SA og öðrum leigupennum á vegum forréttindastéttarinnar.

Óháð kyni, litarhætti eða trúarbrögðum.  

Ég mun á næstu dögum rifja upp nokkur mál sem snúa að Framtakssjóði Íslands sem virðist vera að fá sérstaka athygli  þessa dagana og svo málefni Bakkavarar sem höfðu tugi milljarða af lífeyrissjóðunum eftir hrun.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: