- Advertisement -

Valdalitli forsætisráðherrann

Gunnar Smári skrifar:

Tæknilega er þetta rétt. Ríkisstjórn er fjölskipað stjórnvald sem hefur ekkert um verk einstakra ráðherra að segja. Þótt forsætisráðherra sé fundarstjóri þá snýst sú stjórn um að gefa öðrum ráðherrum orðið. Minnst af valdi ríkisstjórnarinnar heyrir undir forsætisráðherra. Og æ minna á síðari árum þegar stjórn efnahagsmála hefur verið flutt í fjármálaráðuneytið (byrjaði þegar Steingrímur J. tók þessi mál til sín frá forsætisráðuneyti Jóhönnu).

Völd og áhrif forsætisráðherra eru því stórlega ofmetin. Völd Katrínar liggja í því að hún er formaður VG og er sem slík samningamaður við aðra formenn um ríkisstjórnarsamstarfið. Hún getur því ekki sagt Lilju fyrir verkum en hún getur sagt Sigurði Inga að VG þoli það ekki að ráðherra í ríkisstjórn sem VG styður sé í stríði við konur sem leita réttar síns þegar jafnréttislög eru brotin á þeim.

Eins og í mörgum sambærilegum málum kýs Katrín að gera engar athugasemdir. Hún hefur hingað til metið svona mál of lítil í samanburði við mikilvægi þess að hún leiði ríkisstjórn til enda kjörtímabils. Þess vegna komast ráðherrar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks upp með allt í þessari ríkisstjórn. Þeir vita að Katrín myndi aldrei hætta lífi ríkisstjórnarinnar með því að gera athugasemdir við störf þeirra.

Því er Katrín með lítil formleg völd og líka lítil óformleg völd, vegna þess að allir vita að hún mun ekki beita þeim.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: