Á örskömmum tíma hafa valdaflokkarnir tveir misst völdin. Vissulega hafa þeir taumhöld í einu og einu sveitarfélagi. Þeir eru valdalausir á Alþingi og í Reykjavík. Framsókn var í kjörstöðu í Reykjavík en henti frá sér völdunum án nokkurrar fyrirhyggju.
Loksins segja margir. Þrjár konur mynduðu ríkisstjórn og fimm konur eru að mynda meirihluta í Reykjavík. Það er mögnuð staða.
Bjarni Benediktsson las í stöðuna og sá að eftir honum er engin eftirspurn. Hann hættir sem formaður um næstu mánaðamót. Sigurður Ingi þrjóskast við. Fór í fýlu þegar Jóhann Páll Jóhannsson biður hann ekki afsökunar – ég man ekki út af hverju – og virðist fastur í því.
Einar Þorsteinsson, fráfarandi borgarstjóri, og Sigurður Ingi lögðu á ráðin. Sem voru kolröng þegar upp var staðið. Misstu frá sér borgarstjórastólinn að óþörfu. Þeir urðu heimaskítsmát í fyrstu skák.
Ætti Sigurður Ingi ekki að fara að ráðum Bjarna og stíga af sviðinu? Auðvitað. Hann hefur leikið of marga afleiki til að tóra enn sem formaður.
-sme