„Nú er svo komið að alþingismenn hafa misst öll völd.“ Þetta er setning úr grein sem Vilhjálmur Bjarnason, fyrrverandi þingmaður, skrifar í Moggann dag. Þar skrifar hann um umræður um afnám verðtryggingar.
„Það er leið til frama að mæla fagurt. Þeir, sem mæla fagurt án innihalds og þurfa ekki að standa undir fagurmæli á sinn kostnað, eru lýðsleikjur. Lýðsleikjur nútímans, og ýmsar þeirra sitja nú á Alþingi, horfa mjög til þeirra fjármuna, sem eru bundnir í lífeyrissjóðum. Lýðsleikjur telja eignir lífeyrissjóða „fé án hirðis“. Þessum gæðum vilja lýðsleikjur úthluta að sínum geðþótta, án þess að gæta að þeim skyldum sem á lífeyrissjóðum hvíla, en skyldurnar eru aðeins að greiða lífeyri að loknum starfsaldri. Lýðsleikjur í verkalýðshreyfingunni geta átt aðkomu að því að gæta að réttindum eigenda lífeyrisréttinda. Þar geta lýðsleikjur orðið hættulegar. Vilji sumra í þeim flokki stendur til að nota lífeyrissjóði til að úthluta gæðum án eðlilegs endurgjalds.
Lengst ganga sumar lýðsleikjur, sem telja að lánastofnanir séu að „notfæra sér neyð og bágindi“ með því að lána með lánskjörum, sem gera kröfu um að endurgreiðsla sé að jafnvirði lánsfjárins auk hóflegra vaxta. Ef lýðsleikjur og skjólstæðingar þeirra leita á náðir svokallaðra „smálánafyrirtækja“ vegna lána til fasteignakaupa, þá vandast mál. Á ríkisvald, yfir og allt um kring, að vernda slíka lántaka? Á einstaklingur aldrei að bera ábyrgð á sjálfum sér og gjörðum sínum? Eða á ríkisvaldið að vernda réttindi í slíkri „einkabankastarfsemi“? Auðvitað ekki.“
Og síðar í greininni skýtur hann skotum að Ólafi Ísleifssyni.
„Nú hefur doktor í hagfræði, sem nú situr á Alþingi, gengið í flokk með lýðsleikjum og lagt til að lánstími „verðtryggðra lána“ megi lengst vera 25 ár. Eins og Alþingi komi lánstími við! Stytting á lánstíma úr 40 árum í 25 ár hefur í för með sér 35% hækkun á árlegri greiðslubyrði. Lánastofnanir eru ekki að biðja um slíka styttingu og íþyngingu fyrir lánþega. Er slík stytting til hagsbóta fyrir lántaka? Þeir geta alltént greitt aukagreiðslur af lánum sínum ef fjárhagsaðstæður leyfa.“