- Advertisement -

Valdafólk hafnar samhjálp og samstöðu

Mig langar ekki að búa í samfélagi þar sem fólk er látið þjást að óþörfu.

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Hugsið ykkur ef að við byggjum í samfélagi þar sem það væri sameiginlegt markmið allra að öll börn ættu eins áhyggjulítið líf og hægt er. Að þrátt fyrir að við auðvitað elskum okkar eigin börn mest ættum við samt alltaf líka til ást fyrir börn annarra og það væri ekki þolanlegt fyrir okkur að vita að þau þyrftu að þola skort og sorgina sem fylgir því að vera jaðarsett vegna fátæktar aðstandenda. Vegna þess að það er vissulega sorg sem barnshjartað upplifir þegar vitneskjan um fátæktina gerir vart við sig. Sorg sem að fólki dugir oft ekki ævin til að losna undan. 

Hugsið ykkur ef að við byggjum í samfélagi þar sem við viðurkenndum fyrir okkur sjálfum og hvort öðru að vegna þess að mannleg tilvera er erfið, óútreiknanleg og þó stórkostleg gjöf sem okkur er öllum gefin, ein mannleg ævi til að gera það besta úr sem við getum, væri það sameiginleg ábyrgð okkar að við öll fengjum raunveruleg tækifæri til að vaxa og dafna, raunveruleg tækifæri til að nota hæfileika okkar, hverjir sem þeir eru. Hugsið ykkur ef að við byggjum í samfélagi þar sem við viðurkenndum að við getum engu áorkað án hvers annars. Samfélag þar sem við erum öll lokuð af frá hvort öðru, tilfinningalega og efnislega, er samfélag sem enginn ann í raun og veru, samfélag sem þess vegna visnar og deyr. 

Hugsið ykkur ef að við byggjum í samfélagi þar sem að orð eins og þessi væru ekki til marks um einfeldni eða fávisku eða eitthvað sem auðvelt er að gera lítið úr heldur einfaldlega hinn einfaldi sannleikur. Þá væri ekki hægt að nota heimsfaraldur „sem er engum að kenna“ til að gera tilveru fjölda barna og fullorðinna að tilgangslausri tilraun í félagslegri grimmd og niðurlægingu. 

Mig langar ekki að búa í samfélagi þar sem fólk er látið þjást að óþörfu af því að valdafólk hefur hafnað samhjálp og samstöðu í mannlegum samskiptum. Mér finnst það ekki öfgakennd löngum og ég skammast mín ekki fyrir hana.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: