„Íslendingar höfðu lært að fjöldamótmæli eru ekki aðeins möguleg heldur geta haft bein áhrif á valdhafana. Þetta var einn af lærdómum hrunsins.“
Þetta skrifaði Jón Gunnar Bernburg félagsfræðiprófessor eftir að mótmælendur höfðu fælt Sigmund Davíð Gunnlaugsson úr forsætisráðuneytinu eftir Wintrismálið.
Jón Gunnar skrifaði þá: „Mætingin í boðuð mótmæli næstkomandi laugardag mun gefa vísbendingu um hvert framhald mótmælanna verður á næstu vikum. Í bili hafa fjölmiðlar beint kastljósinu annað, hversdagslegri málefni eru komin á dagskrá aftur.“
Og eins þetta: „Þróun mótmælanna undanfarna daga bendir til þess að sóknarfærið fyrir andóf og virkjun fjöldans hafi verið tímabundið, en ljóst er að óánægja kraumar og mótmælahefð hefur fest sig í sessi hérlendis. Sú blanda getur aftur brotist út með afgerandi hætti næst þegar forsendubrestur og trúverðugleikakrísa skekur samfélagið.“
Árangur mótmælenda er mikill. Tekist hefur að hrekja ríkisstjórnir frá völdum. Samt dúkka alltaf sömu valdhafar upp aftur og aftur. Gaman verður að fylgjast með hvað gerist í dag og hvert framhaldið verður.
Verður Kristján Þór áfram í sínu ráðuneyti?
Lifir ríkisstjórnin?
Hvað kostar stuðningur Katrínar við Sigríði Á. Andersen og Kristján Þór? Ekkert eða mikið?