- Advertisement -

Betur sett með krónuna tengda evru

- Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra vill enn myntráð og kvikar ekki frá hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu.

„Ég tel lítinn vafa á því að myntsamstarf þar sem gengi krónunnar væri bundið við evru myndi leiða til þess að útflutningsatvinnugreinar okkar, t.d. hugbúnaðargerð, tæknifyrirtæki, sjávarútvegur og ferðaþjónusta, stæðu miklu betur en raun ber vitni,“ sagði Benedikt Johannesson, formaður Viðreisnar og fjármála- og efnahagsráðherra, á Alþingi í gærkvöld.

Benedikt talaði meira um krónuna. „Við viljum stöðva ofris krónunnar og festa gengi hennar í gegnum myntráð. Fátt rímar betur saman en krafan um almennar skattareglur og stöðugan gjaldmiðil,“ sagði ráðherrann.

Allir við sama borð

Hann rifjaði upp nokkur kosningamál sín flokks. „Viðreisn boðaði fyrir kosningar nokkur meginmál sem við leggjum þunga áherslu á innan stjórnarsamstarfsins. Við viljum að á Íslandi sé sanngjarnt landbúnaðarkerfi þar sem bæði er tekið tillit til hagsmuna bænda og neytenda. Við viljum ná sátt um markaðsleið í sjávarútvegi.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Benedikt sagði ennfremur: „Rauður þráður í gegnum allan okkar málflutning er: Almannahagsmunir framar sérhagsmunum. Allir þeir sem aðhyllast frjálsa samkeppni hljóta að taka undir þetta. Oftar en einu sinni hefur reynt á þetta slagorð okkar. Í sjómannaverkfallinu stóð Viðreisn gegn sérstökum skattaívilnunum til sjómanna. Við berum mikla virðingu fyrir sjómönnum og störfum þeirra en allir eiga að sitja við sama borð í skattamálum.“

Sama gildi um stærstu atvinnugreinina

Hann kvikar hvergi hvað varðar ferðaþjónustuna og virðisaukaskattin: „Við viljum líka hætta skattaívilnunum til ferðaþjónustunnar. Auðvitað er það sanngjarnt að stærsta greinin sé í sama rekstrarumhverfi og aðrar greinar. En sanngirni er ekki einu rökin því að breyting á virðisaukaskatti mun bæði gefa færi á að lækka almennt þrep skattsins, almenningi til hagsbóta, og hægja á vextinum á fjölda ferðamanna til landsins. Þessi hraði vöxtur veldur því að krónan hefur styrkst svo mjög að hún ógnar hag allra útflutningsgreina í landinu.“

-sme


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: