- Advertisement -

Væntanlegt kílómetragjald

Marinó G. Njálsson:

Ég skora líka á Hagstofuna að sýna fyrirfram hver líkleg áhrif af brotthvarfi vörugjaldanna á bensín og dísel og upptaka kílómetragjalds mun hafa innan líkans stofnunarinnar.

Stjórnmál Umræðan um samspil kílómetragjalds og vísitölu neysluverðs er held ég á villigötum. Í athugasemdum með frumvarpinu um kílómetragjaldið er tekið skýrt fram, að meðalbíleigandinn í flokki ökutækja allt að 3.500 kg eigi að vera jafnsettur í núverandi kerfi og nýju kerfi með kílómetragjaldi. Þetta er bíleigandi sem ekur 14.000 km á ári á bíl sem eyðir að jafnaði 7,5 l/100 km.

Fyrir þennan bíleiganda, þá hækkar kílómetragjaldið ekki neysluútgjöld heldur er það hlutlaust gagnvart þeim. Breytingin er engin. Þar sem þetta er meðalbíleigandinn í þessum flokki, þá er spurningin hvernig Hagstofa kemst að þeirri niðurstöðu, að kílómetragjald hækki vísitölu neysluverðs, eins og greint er frá á vef stofnunarinnar. Stofnunin verður að birta forsendur sínar og útreikninga, því það er markmið með breytingunni að hún sé hlutlaus gagnvart þeim heimilum sem keyra á bílum sem eingöngu þarfnast almennra ökuréttinda. Vissulega eru einhver heimili með stærri bíla, en líklega eru megnið af slíkum farartækjum skráð á lögaðila.

Skoðum þetta nánar. Vísitölu neysluverð er skipt upp í 12 meginflokka og er meginflokkurinn 7 Ferðir og flutningar einn þeirra. Hann skiptist í undirflokka 7.1 Kaup ökutækja, 7.2 Rekstur ökutækja og 7.3 Flutningar. Undirflokkurinn 7.2 (sá sem við höfum áhuga á) skiptist síðan í 17 liði og undirliði:

Þú gætir haft áhuga á þessum
  • 072 Rekstur ökutækja
  • 0721 Varahlutir
  • 07211 Varahlutir o.fl.
  • 07212 Hjólbarðar o.fl.
  • 07213 Ýmsir fylgihlutir bíla
  • 07214 Ýmsar rekstrarvörur
  • 0722 Bensín og olíur
  • 07221 Bensín 95 okt
  • 07222 Bensín 98 okt
  • 07224 Dísel
  • 0723 Viðhald og viðgerðir
  • 07231 Viðgerðir og viðhald
  • 07232 Bón og þvottastöðvar
  • 07233 Smurstöðvar
  • 07234 Hjólbarðaverkstæði
  • 07235 Eftirlitsskoðanir
  • 0724 Annað vegna ökutækja
  • 07242 Bifreiðaskoðun
  • 07248 Veggjöld

Hagstofan hefur gefið út að kílómetragjaldið falli undir lið 07.2.4.8 Veggjöld, meðan bensín er mælt í lið 07.2.2.1 Bensín 95 okt. og dísel í lið 07.2.2.4 Dísel. Breyting úr vörugjöldunum í kílómetragjald þýðir að verðbreytingar verða mældar bæði í liðnum 07.2.2 Bensín og olíur og liðnum 07.2.4 Annað vegna ökutækja. Vægi annars mun lækka og hins mun hækka. Förum einu lagi ofar, þ.e. í undirflokk 07.2 Rekstur ökutækja. Ef við horfum bara á þessa breytingu, þá mun vægi 07.2 í vísitölu neysluverðs haldast óbreytt.

Sú breyting veldur lækkun…

Sé kílómetragjaldið hlutlaust, þ.e. gerir ekkert annað en að vega upp niðurfellingu annarra gjalda (þó ekki allra) á bensín og díselolíu, þá veldur það EKKI breytingu á vísitölu neysluverðs. Það sem EKKI er hlutlaus aðgerð, en kemur hinu bara ekkert við, er að Hagstofa mun nota tækifærið og bæta kílómetragjaldi af rafbílum inn í veggjöldin og að ríkissjóður ætlar að nánast tvöfalda mengunarskatta á bensín og dísel.

Að kílómetragjald af rafbílum bætist inn í vísitölu neysluverðs, leiðir til þess að vægi veggjald hækkar umfram hlutleysistilfærsluna. Slík hækkun verður alltaf á kostnað annarra liða í vísitölunni. Vægi þeirra þarf því að lækka til að gefa pláss fyrir kílómetragjald rafbílanna. Sú breyting veldur lækkun eða minni hækkun einstakra liða milli mánaða og dregur því úr hækkun vísitölu neysluverðs eða veldur lækkun hennar.

Svona í lokin. Það veldur furðu mína, að Hagstofa ætli að breyta þeirri hefð, að ný útgjöld komi fyrst inn í vísitölu neysluverðs að undangenginni rannsókn á hve vægi útgjaldanna er í heildarútgjöldum heimilanna. Ágiskun er ekki nóg, því kílómetragjaldið gæti leitt til breyttrar neysluhegðunar. Hagstofa útskýrði það skilmerkilega fyrir ca. 14 árum hvers vegna Lindex var ekki tekin inn í verðmælingar fyrir en ný neyslurannsókn hafði verið gerð. Þó var alveg ljóst frá fyrsta degi, að innkoma Lindex lækkaði verð á barnafatnaði á Íslandi um 20%. Sama var þegar Zara opnaði og stórverslun H&M. Samt breytti opnun þessara verslana neyslumynstri íslenskra heimila ótrúlega mikið og dróg úr kostnaði við kaup á mörgum þeim vöruliðum sem voru á þeim tíma (og eru hugsanlega enn) í vísitölu neysluverðs. Nú á hins vegar ekki bara að taka kílómetragjaldið inn án neyslurannsóknar á áhrifum þess, heldur er búið að gefa út að það muni valda hækkun á vísitölu neysluverðs í janúar.

Skora ég á Hagstofu…

Skora ég á Hagstofu að leggja öll spilin á borðið, þannig að þeir sem vilji geti skoðað útreikningana. Ég skora líka á Hagstofuna að sýna fyrirfram hver líkleg áhrif af brotthvarfi vörugjaldanna á bensín og dísel og upptaka kílómetragjalds mun hafa innan líkans stofnunarinnar. Tilfærsla á 95.000 kr. milli undirundirliða í vísitölu neysluverðs með engri breytingu á heildarvægi undirflokksins 7.2 Rekstur ökutækja í vísitölunni, á ekki að valda hækkun vísitölunnar sé tilfærslan meðhöndluð rétt.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: