Ljótt er ef satt er, sem er ekki ástæða til að efast um. Helga Vala skrifar í Mogga dagsins:
„Í vikunni sem leið, er ég gekk heim úr vinnu, hlustaði ég á fréttaþátt þar sem stjórnendur hafa verið við hljóðnemann í nær 18 ár og eru því reyndir fjölmiðlamenn. Símatími hlustenda var í gangi þar sem rætt var um krónu á móti krónu skerðingu og hún borin saman við frítekjumark eldri borgara. Hlustandinn taldi hag eldri borgara mun verri, að afnám krónu á móti krónu skerðingar væri á einhvern hátt ósanngjarnt því það væri óeðlilegt að vera í fullri vinnu og á örorkulífeyri á sama tíma.“
Síðan skrifar Helga Vala:
„Þáttastjórnendur mölduðu í móinn en voru þá beðnir um að útskýra þetta krónu á móti krónu fyrirkomulag. Fátt var um svör og umræðu lauk með að þetta skildi jú enginn!
Mér brá nokkuð við hlustunina. Ef staðan er svona hjá reyndu fjölmiðlafólki sem fæst við fréttir og fréttatengt efni á hverjum degi, þá er kannski ekki skrítið að almenningur sé ekki mættur á Austurvöll daglega til að mótmæla þessu óréttlæti sem enginn annar hópur á landinu þarf að þola.“
Síðan ber Helga Vala okkur niður á Alþingi:
„Stór hópur öryrkja er fastur í þeirri fátæktargildru að geta ekki móttekið neina fjárhæð án þess að það bitni á þeim með skerðingu hverrar einustu krónu á móti þeirri krónu sem aflað er. Þeir öryrkjar sem hafa einhverja starfsorku hafa engan ávinning af því að nýta hana. Þeir öryrkjar sem fá dánarbætur, mæðra- eða feðralaun, lífeyrisgreiðslur, styrki eða fjármagnstekjur þurfa að þola að hver einasta króna er skert á móti, króna fyrir krónu. Þetta er 100% skerðing og fólki þannig bæði refsað fyrir að reyna að bjarga sér sem og fyrir að fá bætur eða laun vegna bágra aðstæðna sinna.
Í síðustu viku voru greidd atkvæði um fjárlög ríkisstjórnarinnar. Þar þótti stjórnarþingmönnum það hróplega ósanngjarnt af okkur í Samfylkingunni og öðrum stjórnarandstöðuflokkum, að leggja til að möguleg kerfisbreyting á almannatryggingakerfinu yrði ekki látin tefja afnám krónu á móti krónu. Lögðum við til að kerfisbreytingin yrði látin gilda frá áramótum þótt framkvæmdin kæmi mögulega ekki til fyrr en síðar á árinu. Sögðu stjórnarþingmenn þurfa að fullvinna breytingar, innleiða starfsgetumat og fleira en þetta er alrangt. Ef vilji ríkisstjórnarinnar er að afnema krónu á móti krónu þarf að sýna það í verki en ekki þvæla því í öðrum kerfisbreytingum enda hefur nefnd um slíkt verið að störfum árum saman án afnáms skerðingarinnar. Það hvernig fólk er metið til örorku og hvernig greiðslu lífeyris er háttað er bara ekki sami hluturinn. Þessi eini hópur sér engan ávinning á því að afla sér minnstu mögulegu tekna og það er ekki réttlátt. Enginn annar hópur á landinu þarf að þola slíka 100% „skattlagningu“ á hverja krónu. Ég bara skil ekki hvernig stjórnarþingmenn gátu réttlætt það að fresta þessari sjálfsögðu réttarbót enn einu sinni.“
Þó Helga Vala nefni ekki hér hvar hún heyrði hinn óupplýsti útvarpsmenn hefur hún gert það annars staðar. Hún var að hlusta á Reykjavík síðdegis á Bylgjunni þegar henni blöskraði svo mikið.