- Advertisement -

Útúrsnúningur Hjálmars borgarfulltrúa

Marinó G. Njálsson skrifaði:

Ég á mjög erfitt með að sjá, að eitthvað sé líkt með Valssvæðinu og Norðurmýri. Eða Vogabyggð annars vegar og Ásvallagötu og Sólvallagötu hins vegar.

Borgarfulltrúi lýsti í Silfrinu þéttustu götum Reykjavíkur sem Ljósvallagötu, Ásvallagötu, Sólvallagata, Framnesvegur, Seljavegur, Grettisgötu, Bergþórugötu, Norðurmýri og Hlíðunum, þar sem hann segir að séu um 110 íbúðir á hektara. Þetta er náttúrulega algjör útúrsnúningur.

Tvennt er líklega augljóst í þessum útúrsnúningi. Það fyrra er að íbúðir við þessar götur eru minni að meðaltali en allar íbúðir í sömu póstnúmerum (101 og 105). Ég fletti upp í kaupskrá fasteigna sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun heldur utan um og skoðaði meðalfermetrastærð íbúða í fjölbýli við þær götur sem borgarfulltrúinn taldi upp og aðliggjandi götur, því ég var ekki viss um að borgarfulltrúinn mundi öll götuheitin og fannst heldur valkvætt að nefna Grettisgötu og Bergþórugötu, en sleppa Njálsgötu sem liggur á milli þeirra. Einnig takmarkaði ég valið við íbúðir byggðar frá 1924-2000. Meðalstærð íbúða á svæðinu sem borgarfulltrúinn vísaði til var 89,9 fm, en séu allar fjölbýlisíbúðir innan þessara tveggja póstnúmer teknar, sem byggðar voru á árunum 2010-2024, þá er meðalstærð þeirra 98,1 fm. Þarna munar hátt í 10% í stærð, þannig að 110 íbúðir á hektara í þessum handvöldu götum, samsvarar 100 íbúðum miðað við 98,1 fm á hverja íbúð.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Hér var byggt þétt en tryggt að allir geti notið sólar. Ekki síst í sameiginlegum húsagarði.

Síðara atriði, sem borgarfulltrúinn var ekki að nefna, er hvernig er byggt við þessar götur. Þar eru nánast eingöngu 2-3 hæða hús, þannig að sólin nær niður á götu. Við margar af þessum götum eru sérbýlishús öðru megin götunnar, en fjölbýlishús hinu megin. Sem þýðir að birta sést á milli húsanna. Sérbýlishúsin eru upp til hópa meða garða framan við húsin, þannig að húsin eru ekki byggð klesst upp við götuna. Þetta dregur allt verulega úr áhrifum þéttingarinnar. Síðan eru göturnar í mörgum tilfellum einstefnuakstursgötur, ef ekki þá er götur ágætlega rúmar.

Ég á mjög erfitt með að sjá, að eitthvað sé líkt með Valssvæðinu og Norðurmýri. Eða Vogabyggð annars vegar og Ásvallagötu og Sólvallagötu hins vegar. Ef þétting byggðar í Reykjavík hefði verið gerð með Norðurmýrina eða þessa tvær götu í Vesturbænum sem fyrirmynd, þá væri líklega enginn að kvarta. Þéttingu byggðar er nefnilega alveg hægt að ná án þess að kæfa hverfin með húsum, þar sem allt mannlegt er tekið úr umhverfinu og skugga varpað á gangandi vegfarendur sama hvoru megin götunnar er gengið. Allt vegna þess að hægt er að ná hærra nýtingarhlutfalli. Ég get ekki séð að þetta hafi verið gert til að lækka verð íbúða.

Greinin birtist fyrst á Facebooksíðu Marinós. Hún er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: