„Um árabil hefur það fyrirkomulag verið haft á afgreiðslu umsókna um ríkisborgararétt sem beint er til Alþingis að þær fara í gegnum Útlendingastofnun sem tekur þær saman ásamt öðrum upplýsingum og sendir Alþingi til afgreiðslu,“ sagði Píratinn, Arndís Anna Kristínar Gunnarsdóttir, á Alþingi fyrir skömmu.
„Stóð til að gera þetta nú rétt fyrir jólin líkt og endranær en vegna tregðu Útlendingastofnunar til að afhenda gögnin fór allsherjar- og menntamálanefnd fram á afhendingu þeirra með vísan til 51. gr. laga um þingsköp Alþingis sem kveður á um skýra skyldu stjórnvalda til að verða við slíkri beiðni þingnefndar. Hefur stofnunin nú þriðja sinni sýnt þinginu þá vanvirðingu að lýsa því yfir að hún muni ekki afhenda þinginu umbeðin gögn og upplýsingar, að sögn samkvæmt fyrirmælum ráðherra. Fer ég því fram á að forseti standi vörð um virðingu Alþingis Íslendinga og gangi á eftir því að stjórnvöld sinni lögbundinni skyldu sinni til að afhenda þinginu gögn og upplýsingar sem óskað hefur verið eftir með vísan til laga um þingsköp Alþingis.“