Útlendingastefna að hætti VG?
Gunnar Smári skrifar:
Stuttu fyrir síðustu kosningar ræddi ég úti á götu við einn af núverandi þingmönnum VG um það sem mér fannst þá liggja í spilunum; að forysta VG ætlaði að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Þingmaðurinn tilvonandi vildi banda þessu frá sér, en sagði svo: Hvað ef staðan verður sú að hinn kosturinn er ríkisstjórn þar sem Miðflokkurinn og Flokkur fólksins hafa ráðandi áhrif á útlendingastefnuna? Þingmaðurinn tilvonandi var sem sé að stilla því þannig upp, að verið gæti að VG þyrfti að fórna sér fyrir hælisleitendur og flóttafólk, að lyfta Sjálfstæðisflokknum enn einu sinni til valda og leyfa þeim að reka áfram stríð sitt gegn fátækum og valdalausum, ef það gæti orðið til þess að bjarga hælisleitendum. Ég varð náttúrlega orðlaus, sem oft, ekki síst vegna þess að það var ekki að sjá í neinum spilum að þeir flokkar sem höfðu flaggað útlendingaandúð í kosningabaráttunni væru að ná meirihluta. En hvað um það; hvað finnst VG-liðum, sem féllust á þessa réttlætingu fyrir ríkisstjórn Katrínar, um árangurinn? Vellur óbreytt útlendingastefna ekki áfram, óhindrað? Má þá túlka það svo að þetta sé akkúrat sú útlendingastefna sem VG styður?