Fréttir

„Útlánasvall“ við einkavæðingu banka

By Miðjan

June 25, 2021

„Þar sem bankarnir fjármögnuðu sig á alþjóðlegum heildsölumörkuðum var bólan fjármögnuð erlendis og innflæði lánsfjár hafði fyrirsjáanleg áhrif á gengisvísitölu krónunnar, hlutabréfamarkaðinn og viðskiptajöfnuðinn.“

Ástæða er til að endurbirta þessa grein frá því febrúar 2019.

Þekkt er þegar bankar hafa verið einkavæddir að útlán þeirra hafa aukist til mikilla muna. Almennt til skaða.

„Útþensla bankakerfisins var rót örs hagvaxtar hér á landi á tímabilinu 2003 til 2007,“ skrifuðu hagfræðingarnir Jón Daníelsson og Gylfi Zoega í skýrslunni Hagkerfið bíður skipbrot, frá árinu 2009.

Þeir segja að einkavæðingin og útlánaaukningin, sem þeir kalla útlánasvall, hafi gert heimilum og fyrirtækjum kleift að færa sér í nyt gnótt fjármagns á lágum vöxtum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum til að fjármagna innlenda fjárfestingu og neyslu sem og yfirtöku innlendra og erlendra fyrirtækja. „Þar sem bankarnir fjármögnuðu sig á alþjóðlegum heildsölumörkuðum var bólan fjármögnuð erlendis og innflæði lánsfjár hafði fyrirsjáanleg áhrif á gengisvísitölu krónunnar, hlutabréfamarkaðinn og viðskiptajöfnuðinn.“

Þeir félagar horfa einnig til þess tíma áður en bankarnir voru einkavæddir:

„Ísland um aldamótin var með ríkustu löndum veraldar, verg landsframleiðsla á mann var hærri en í Þýskalandi, Frakklandi og á Bretlandi; mennta- og heilbrigðiskerfi til fyrirmyndar; og skuldsetning viðráðanleg. Einkavæðing bankanna hafði hins vegar þau áhrif að þetta hagkerfi sem byggði velferð sína á auðlindum og framleiðslu varð sífellt skuldsettara, efnahagsreikningar heimila, fyrirtækja og banka blésu út. Til skamms tíma varð þetta til þess að bæta lífskjör og afkomu fyrirtækja vegna þess að verð eigna, hlutabréfa og fasteigna, fór hækkandi. Með lækkandi eignaverðum og falli krónunnar í kjölfar hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu varð afleiðingin hins vegar fjöldagjaldþrot fyrirtækja, greiðsluerfiðleikar heimilanna og gjaldþrot bankanna. Lánasvallið kom þjóðinni í koll.“

Nú verður fólk að svara hvort vilji sé til að setjast aftur um borð í rússíbanann.