Útkeyrt starfsfólk á fundi þingnefndar
„Þá veltir maður fyrir sér hvernig ráðherra sjái fyrir sér að þetta verði. Hvernig sér meiri hlutinn fyrir sér að það starfsfólk sem kemur bugað af vinnuálagi fyrir nefndina að kynna hvert málið á fætur öðru — og þegar við spyrjum þau hvernig gangi segja þau einfaldlega að þau hlaupi og hlaupi — og hvernig sjá stjórnvöld og ráðherra fyrir sér að þetta ráðuneyti eigi að geta haldið utan um þennan gríðarlega stóra og mikilvæga málaflokk svo vel sé, án þess að það verði gerð stór mistök? Því að ég hef áhyggjur af því að við séum að gera ákveðin mistök með þessu og að við verðum svo næstu árin að leiðrétta og lagfæra eftir að komið er út í ógöngur. Mér finnast það ekki, herra forseti, sérstaklega góð vinnubrögð og þess vegna get ég ekki tekið undir það þegar meiri hluti nefndarinnar afgreiðir þetta með þessum hætti.“
Þetta sagði Helga Vala Helgadóttir, sem var málsvari minnihluta velferðarnefndar vegna sameiningu Mannvirkjastofnunar og Íbúðalánasjóðs.
„Það kom skýrt fram í máli fulltrúa Mannvirkjastofnunar fyrir nefndinni að þeim þótti í rauninni samráðið ekki vera fullnægjandi. Þó að það hefði verið einhver nefnd að störfum og þess háttar þá þótti þeim eins og stefnan væri mjög einhliða. Það var bara búið að ákveða þetta og stofnunin skyldi fara að aðlaga sig að því — og hafa þau verið að gera það því að þau áttuðu sig á því snemma, eins og kom fram, að það var illfært að snúa til baka. En ekki bara það heldur líka er óþægilegt að sjá t.d. í umsögn Íbúðalánasjóðs um málið talda upp átta töluliði um hver séu markmiðin með þessari stofnun, með sameiningu þessara tveggja stofnanna, og enginn af þessum töluliðum, engin af þessum athugasemdum á við um tvo þriðju hluta starfsemi Mannvirkjastofnunar. Það virðist vera áherslan hjá þeim sem hafa verið helst að keyra áfram þessa sameiningu, sem ég er í eðli mínu ekkert ósammála að kunni að vera hagkvæm og sniðug og allt það, en það eru vinnubrögðin sem ég hef áhyggjur af. Tveir þriðju hlutar starfsemi Mannvirkjastofnunar virðast lenda einhvers staðar ofan í skúffu, falla á milli skips og bryggju. Það er ekki tekið nógu mikið tillit til öryggisþáttarins, brunavarna, eftirlitsþátta o.s.frv. Það er byggingarþátturinn sem verður út undan þegar kemur að húsnæðismálunum. Byggingarþátturinn verður olnbogabarn. Sá þáttur var orðinn það áður, við flutninginn yfir, því að það kom líka fram hjá fulltrúum félagsmálaráðuneytis að ekki eitt einasta stöðugildi úr umhverfis- og auðlindaráðuneyti kom yfir í félags- og félagsmálaráðuneytið við flutning á húsnæðismálunum fyrr á árinu, ekki eitt einasta stöðugildi, heldur átti það starfsfólk sem þar var fyrir að hlaða á sig fleiri verkefnum. Þetta eru engin smáræðisverkefni.