- Advertisement -

Útgerðir flagga út fiskiskipum og skerða þar með kjör sjómanna

Þau réttindi verða fyrir bí, auk þess sem sjómenn þurfa oft og tíðum að þola miklar launalækkanir.

„Samkvæmt upplýsingum þaðan hefur það komið ítrekað fyrir að þegar skipum er flaggað út eða þau afskráð úr íslenskri lögsögu, af skipaskrá hér og skráð í öðru ríki, hafi verið gengið á réttindi íslenskra sjómanna sem á þeim skipum vinna. Ástæðan er sú að íslensk lög og kjarasamningar um réttindi og aðbúnað gilda ekki lengur um þá starfsmenn og sjálfsögð réttindi eins og rétt til launa vegna vinnuslysa, réttindi í lífeyrissjóðum, stéttarfélögum og í félagslega kerfinu. Þau réttindi verða fyrir bí, auk þess sem sjómenn þurfa oft og tíðum að þola miklar launalækkanir. Þær áhyggjur sem koma innan úr verkalýðshreyfingunni snúa að því að þetta geti aukist töluvert við afnám stimpilgjaldsins og hafi þannig gríðarlega neikvæð áhrif á íslenska sjómannastétt og að það sem hafi kannski hamlað því að menn hafi afskráð skip sé kostnaður við stimpilgjaldið sem er 1,6% í dag.“

Þessi alvarlegu orð eru úr ræðu Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, úr VG og formanns atvinnuveganefndar þingsins. Þar var rætt um af fúlustu alvöru að stórlækka stimpilgjöld vegna breytts eignarhalds á fiskiskipum. Það mun þá auka enn á að skipum verði flaggað út.

„Við getum verið stolt af því að íslenskir sjómenn fái að njóta þeirra sjálfsögðu réttinda sem ég nefndi áðan ásamt fleiri mikilvægum réttindum. Þessi réttindi hafa ekki dottið af himnum ofan, þau hafa unnist við áralanga baráttu sjómanna fyrir bættum kjörum. Mér finnst lykilatriði að við gefum þau ekki eftir heldur skoðum hvort hægt sé að gera þetta með einhverjum þeim hætti að þetta verði ekki til þess að það verði hömlulaus útflöggun af íslenskri skipaskrá með tilheyrandi afleiðingum, atvinnuóöryggi og réttindamissi, fyrir þá sjómenn sem þarna eiga í hlut,“ sagði Lilja Rafney.

Þar eru réttindin allt önnur en þau sem við þekkjum hér.

Lilja Rafney hélt áfram: „Það hefur verið þó nokkuð um að það sé verið að fara með skip til Grænlands. Þar eru réttindin allt önnur en þau sem við þekkjum hér. Þar er krafa um að allir undirmenn séu grænlenskir. Maður skilur vel þá kröfu út frá grænlenskum hagsmunum en þar eru kjarasamningar sambærilegir og hér ekki til staðar, allt annað félagslegt kerfi í gangi og slysatrygging minni. Ef þetta verður til þess að hemillinn á að útgerðir fari í að afskrá sig af íslenskri skipaskrá hverfi sjáum við líka fram á að fleiri sjómenn missi vinnu og þar með lækki skattar og útsvar af viðkomandi sjómönnum. Ég tel að þetta sé ekki einfalt mál. Vissulega má ræða jafnræði við aðrar atvinnugreinar undir þessum formerkjum en veruleikinn er sá að þetta hefur í raun verið eini hemillinn á því að menn hafa ekki farið á fullt í að flagga út skipum með tilheyrandi afleiðingum fyrir réttindi sjómannastéttarinnar og atvinnuóöryggi sem hefur fylgt og allt öðrum kjörum sem bjóðast eftir að búið er að afskrá skip af íslenskri skipaskrá.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: