Sigurður Ingi Jóhannsson upplýsti í morgun að fast sé sótt að ráðafólki til að bæta hag útgerðarinnar. „Ég hef aldrei upplifað eins sterkt ákall frá minni og meðal fyrirtækjum um hversu erfitt ástandið er,“ sagði hann á Morgunvaktinni í morgun. Sama gildir eflaust um annað ráðafólk. Það er því fast sóst eftir lækkun veiðigjalds. En er staðan svo slæm?
Froðufærslur sem brengla afkomumyndina
Indriði H. Þorláksson, margreyndur reiknimeistari Vg hefur sent inn umsögn vegna frumvarpsins um lækkun veiðugjalda. Þar stendur meðal annars:
„Því hefur verið haldið fram að í reynd sé ekki verið að lækka veiðigjöld heldur jafnvel að hækka þau vegna þess að veiðigjaldanefnd myndi lækka þau enn frekar ef ekkert yrði að gert. Er þá vísað til þess að það regluverk sem hún vinnur eftir sé ónýtt sem er út af fyrir sig rétt. Reiknistofn veiðigjalda er nú svokallaður EBT eða hreinn hagnaður sem á engan hátt lýsir raunverulegri rekstrarafkomu en er háður alls konar fjármálagerningum og bókhaldsaðgerðum sem eru afkomu sjávarútvegs óviðkomandi auk þess að gengisbreytingar koma fram í froðufærslum sem brengla afkomumyndina eins og reyndar er viðurkennt í greinargerðinni og hefur komið fram í óeðlileegum sveiflum á síðustu árum. Þessir gallar verða ekki lagfærðir með hraðara upplýsingavinnslu eins og ætla mætti af greinargerðinni. Það er ekkert betra að gera vitleysu í rauntíma í stað þess að gera hana síðar. Þessi galli leiðréttist ekki nema með því að breyta reiknigrunni veiðigjalda og tak upp EBIDTA eða auðlindaarð sem væri enn betra.“
Of lág veiðigjöld stuðla að einokunaraðstöðu í sjávarútvegi
„Sú mantra að veiðigjöldin hamli fjárfestingu og framþróun í sjávarútvegi lifir góðu lífi í öllu andófi við veiðigjöld. Lítil rök fyrir eru þeirri staðhæfingu. Fjárfesting á að ráðast af arðsemi hennar. Arðsemi í sjávarútvegi er meiri en í öðrum atvinnugreinum hér á landi og getur slíkt leitt til offjárfestingar, einkum þegar litið er til þess að aflamagnið er takmarkað. Nýfjárfestingar í sjávarútvegi eru eins og eðlilegt er að verulegu leyti fjármagnaðar með lánum en rekstrarhagnaðurinn hefur verið notaður til arðgreiðslna eða fjárfestinga í óskyldri starfsemi. Of lág veiðigjöld stuðla þannig að því að einokunaraðstaða í sjávarútvegi verður í reynd til þess að aðrar greinar atvinnulífs færast í vaxandi mæli í hendur þessara sömu aðila og hagnast hafa á nýtingu fiskveiðiauðlindar þjóðarinnar,“ segir einnig í umsögninni.